Getur verið að vopnuðum átökum milli þjóða og þjóðarbrota hafi fjölgað eftir að kalda stríðinu lauk? Getur verið að fleiri stríð séu háð? Getur verið að vopnabirgðir og vopnasala hafi aukist? Getur verið að "sigur" Bandaríkjamanna og yfirburðir þeirra í hergagnaframleiðslu hafi gert þá svo hrokafulla og árasargjarna að heimurinn hafi verið betur settur með ógnarjafnvægi tveggja öfgafullra valdablokka?
Þegar múrinn féll var ég staddur á hóteli í St. John á Antiqua. Þarna var ég á vegum alþjóða Rauða Krossins að taka út skemmdir og meta mögulegar aðgerðir eftir að hvirfilbylurinn Hugo gekk þar yfir 2 mánuðum áður. Ég hafði ekki tíma til að fylgjast með atburðinum né heldur var mikill áhugi hjá samstarfsfólki mínu til að ræða hann, enda var Evrópa í utan áhuga- og áhrifasvæðis þeirra. Hins vegar velti ég fyrir mér öllum þeim breytingum sem vænta mætti í samskiptum milli ríkja í Evrópu og um allann heim. Allar mínar vangaveltur gerðu ráð fyrir því að nú myndi upphefjast friðar- og samvinnutímabil.
En hvað gerðist? Sovétríkin liðuðust sundur og Varsjárbandalagið leið undir lok en NATO efldist og háir nú stríð um víðan heim. Og BNA styrktu hernaðar- og efnahagslega stöðu sína sem aldrei fyrr . "Stórveldisstuðull" (US Foreign Policy after 1989: The Mystery of the Hegemonic Hog) BNA hefur hækkað gagnvart öllum ríkjum sem skipta máli nema Kína, hernaðarmáttur margfaldast, herstöðvum fjölgað og þær stækkað (þær eru yfir 700 um allan heim). Hlutdeild BNA í vopnasölu hefur aukist úr 37% í 68% eftir að kalda stríðinu lauk (America's Global Weapons Monopoly) og ekkert ríki hefur afl til að heyja langt stríð í fjarlægu landi, - hvað þá tvö samtímis eins BNA hafa gert síðan 2003.
E.t.v. hefði ekki komið til stríðs á Balkanskaga 1990 ef Sovétríkin hefðu verið við lýði sem súperveldi. Sagt er að fyrri heimsstyrjöldin hafi dunið yfir m.a. vegna þess að Þýskalandskeisari reiknaði með að hin þýsk-rússneski Nikulás ll, sem auk þess var kvæntur þýskri konu af háaðli, myndi ekki heyja stríð gegn Þýskalandi. Rússland snérist hins vegar á sveif með hinum slavnesku Serbum. Á svipaðan hátt þá voru Sovétríkin áhrifamikil í meðal slavnesku þjóðanna í Sambandsríkinu Júgóslavíu eftir seinna stríð. Júgóslavía var m.a. háð Sovétríkjunum um vopn og var hluti af efnahagsbandalaginu COMECON.
Hugsanlega hefði Saddam ekki þorað eða fengið leyfi til að ráðast inn í Kuwait 1990 ef Sovétríkin hefðu verið jafn áhrifamikil og áður? Þótt Iraq hafi háð stríðið við Írani frá 1980-88 með bandarísku fjármagni og bandarískum vopnum þá voru Sovétríkin gömlu hinn hefðbundni stuðningsaðili Saddams. Mest af flugskeytunum komu þaðan sem og flugflotinn, skriðdrekar og þungavopn. Ef Saddam hefði ekki ráðist inn í Kuwait þá hefði ekki komið til Flóastríðsins sem varð til þess að BNA fylltust sjálfsöryggi og stórveldaáráttu eftir tiltölulega erfið ár í framhaldi af tapinu í Víetnam. Ef ekki hefði komið til Flóastríðsins stæðu Tvíburaturnarnir sennilega á síinum stað í dag því árásin á þá var gerð af Saudi Aröbum vegna veru erlends herliðs í landi þerra.
Og ef ekki hefði verið gerð árás á Tvíburaturnanna þá hefði ekki verið ráðist inn í Afghanistan.
Sovétríkin voru auðvitað algjörlega síðasta sort. Þau byggðust á rangri hugmyndafræði, á rangri hagfræði og í raun og veru var allt það dæmi út í hött. Ekki síst byggðust þau á þvílikri grimmd og mannfyrirlitningu að fyrr eða síðar
hlutu þau að hrynja. Það hlýtur að vera erfitt eða ómögulegt að byggja ríki á grunni eins og þeim sem lagður var í Sovétríkjunum fram til 1990 eða svo.
En hitt er að mínu mati þörf spurning hvor BNA þurfi utanaðkomandi aðhald. Sjálfhverfi Bandaríkjamanna sem einstaklinga og BNA sem þjóðar birtist manni þannig í fréttum að mér dettur í hug að það kunni að vera svo. Saga þeirra, eftir því sem ég þekki hana, er mótuð af yfirgangi, öfgum og blindri trú á mátt hins sterka. Og þetta er jafn áberandi í dag og það var á árum áður.
Hvað er hægt að segja um þjóð sem velur sér hálfgerðan idíót til forseta sem studdur er og stjórnað af einstaklingum og samtökum sem hafa á stefnuskrá sinni að leggja heiminn undir sig?
Recent Comments