Fyrir úrslitaleikinn lýstu Schneider og séstaklega Robben yfir að aðalatriðið væri að vinna. Það skipti ekki máli hvort þeir spiluðu flottan eða fúlan bolta bara ef þeir ynnu leikinn. Fyrir leikinn sagði ég við Binna, sem kom um kl 2300 til að horfa á leikinn með mér, að Webb hinn breski spjaldaði mikið og hleypti oft upp leikjum í seinni hálfleik með misræmi í dómum. Yfirlýsingar Hollendinganna og þessir eiginleikar Webbs gáfu ekki góð fyrirheit um leikinn.
Það átti líka eftir að koma í ljós að tuddaskapurinn sem Holland sýndi í leikjunum gegn Brazilíu og Úrugúæ var mikilvægur þáttur í leik þeirra gegn Spáni. Og það þýðir ekkert að segja að Spánn hafi líka fengið mörg spjöld (5 á móti 10). Tónninn var settur með tuddaskap Hollands og brot Spánar voru flest lítilvæg. Hitt er svo annað mál að dómurum hættir til að reyna að hafa jafnræði í spjöldunum og virðast halda að það sé merki um ómdeilanlegt hlutleysi.
Og Webb lét ekki sitt eftir liggja. Hann notaði 15 gul spjöld (sumstaðar er sagt 13 eða 14) og eitt rautt og meira en tvöfaldaði fyrra met í úrslitaleik (6 í Brazilíu 1978). Auk þess þorði hann ekki þegar á reyndi. De Jong ásamt van Bommel hefðu átt að fara í sturtu strax í fyrri hálfleik. Eftir því sem leið á leikinn fjölgaði afglöpunum og misræmið í dómum varð meira og meira sláandi. Einn fékk spjald fyrir að sparka burt bolta eftir að Webb stöðvaði leikinn en annar slapp með sama brot nokkrum mínútum síðar líklega vegna þess að hann var með gult spjald fyrir.
Eftir mótið stendur tvennt uppúr í mínum huga:
- Spánn spilaði frábæran tæknibolta en skoraði allt of fá mörk. Ég var orðinn hundleiður á þessu bróderíi. Fótbolti gengur útá að skora mörk eða amk að skjóta á markið. Stundum fannst mér að Spánverjarnir hefði gleymt þessu.
- Þýskaland átti skemmtilegasta liðið. Þeir spiluðu vel skipulagðan sóknarbolta og voru tæknilega í fremstu línu. Allir leikir þeirra voru skemmtilegir nema etv leikurinn gegn Spáni. Þeir voru svo yfirvegaðir á boltanum að mér fannst gullna reglan "vertu snöggur en ekki flýta þér" eiga best við þá.
Þetta er búinn að vera góður mánuður. Ég hef átt frábærar stundir með boltanum. Ég er svo lánsamur að geta horft á útsendingar frá BBC og ITV en þeir skiptu keppninni milli sín á enska markaðnum. Þar voru gæði útsendingarinnar miklu betri en hjá RÚV og þulirnir og umfjöllun almennt í hæsta gæðaflokki. Ég tók nánast alla leikina upp og horfði á þá á besta tíma kvöldin og horfði sjaldan á meira en einn leik á dag. Stundum varð ég að loka fyrir útvarp nánast allan daginn og byrja hvert símtal með viðvörun um að ég vildi ekki heyra úrslit.
Næst er það Evrópumótið, - í Svíþjóð held ég.
[Uppfært 15.7.2010: EM verður haldið í Póllandi og Ukraníu]
Recent Comments