Ég var að koma af fundi um orkumál og álver þar sem Dofri Hermannsson, Sigmundur Einarsson og Ágúst F Hafberg fluttu framsöguerindi. Dofri er bloggari (Yfirvofandi stóriðju..., Álvíkingar..., Orkubóla...) framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, varaborgarfulltrúi og talsmaður borgarstjórnarflokksins um umhverfismál. Sigmundur er jarðfræðingur sem hefur beitt sér fyrir umræðu um orkumál, virkjanir og álver. Ágúst er upplýsingafulltrúi Norðuráls .
Eins og við var að búast kom margt fram í erindum þeirra félaga. T.d. benti Dofri á að samkvæmt ársskýrslu Orkuveitu Suðurnesja fyrir árið 2007 hefðu OS þá þegar vísað mörgum fyritækjum með 10-20 MW orkuþörf frá vegna þess að þeir gátu ekki útvegað orkuna. Þetta sýnir að atvinnuvegir sem gjarnan ganga undir nafninu "eitthvað annað" er til staðar. Hann nefndi líka fjölmarga raunhæfa kosti sem hefðu verið settir í bið eða fengið afsvar vegna ruðningsáhrifa frá Fjarðaráli og Kárahnjúkum. Þessir kostir þurftu flestir 20-40 MW orku, sem fellur vel að virkjunaráföngum fyrir jarðvarmavirkjanir, og eiga það sameiginlegt að skapa 100-500% fleiri störf pr. uppsett MW en álbræðsla.
Sigmundur stóð við sínar greiningar á virkjunarmöguleikum og tímasetningum (Yfirdrifin orka...). Hann benti jafnframt á að tölur hans hefðu í raun ekki verið hraktar þótt ýmsir bentu á að næg orka væri til í landinu því menn væru nokkuð sammála um að hún væri tæknilega ekki virkjanleg innan þess tímaramma sem Helguvík keyrir á.
Ágúst sagði frá því að eftir að Sigmundur fór að tala um að það vantaði orku fyrir Helguvík hefði Norðurál haft samband við ráðgjafa sína og þau orkufyrirtæki sem væru samningsbundin um að afhenda orku . Í stuttu máli þá hefðu allir aðilarnir fullyrt að hægt yrði að standa við samningana. Að vísu væru öll vinnslusvæðin ekki full rannsökuð, sum svæðin væru eilítið öðruvísi en "venjulegt" væri og virkjunarleyfi hefðu ekki verið gefin út. Norðurál hefur þegar hafið byggingu álversins þótt virkjunarleyfi hafi ekki verið gefin út og þótt umhverfismat fyrir 360 þús T verksmiðju. Litlu máli skiptir þótt ekki liggi fyrir umhverfismat fyrir suðvestur línu að því gegnu að þaðverði jákvætt þegar það kemur.
Eftir að álver hafa risið í Helguvík og á Bakka og álverin í Grundartanga og í Straumsvík hafa verið stækkuð munu öll jarðhitasvæði og nánast öll vatnsorka á öllu landinu sem virkjanleg er á hagstæðu verði og með ásættanlegum umhverfisáhrifum hafa verið virkjuð (sjá t.d. Orkudraumar...). Aðeins jökulárnar í Skagafirði verða þá óvirkjaðar af stórum og hagkvæmum kostum. Engin orka á hagkvæmu verður eftir til að nýta t.d. fyrir rafmagnsbíla eða fyrir afkomendur okkar til að nýta sér til hagsbóta. Þessu hefur ekki verið mótmælt svo ég viti.
Álbræðsla er ekki þekkingarstarfsemi og hún skapar tiltölulega fá störf. Álbræðsla skapar aðeins 2% af landframleiðslu á meðan byggingariðnaður og ferðaþjónusta skapa hvor um sig um 10%, fiskveiðar um 5% og annar iðnaður um 9%. Norðurál reiknar með að vinnsla hefjist seinni hluta 2011 og að verksmiðjan verði fullbúin 2016. Verksmiðjan á að skila arði eftir 7-10 ár og þá hefjast skattgreiðslur.
Vatnsorka er tiltölulega hagkvæm til að virkja stóra áfanga eins og álbræðslur en jarðhiti er frekar hagkvæmur til að virkja í smærri áföngum t.d. um 50 MW í einu. Þó framkvæmdirnar í Helguvík og virkjanir þeim tengdar séu álíka miklar og var við Kárahnjúka og á Reyðarfirði munu ruðningáhrifin ekki verða jafn mikil vegna áfangaskiptingar bræðslunnar. Eftir sem áður mun þurfa að flytja inn vinnuafl í stórum stíl og það fólk sem kemur mun setjast hér að í hópum.
Bottom line
Alþjóðlegir auðhringir berjast nú eins og ljón í búri um síðustu orkudropana sem fást á útsöluverði á Íslandi. Þeir vita að orkan er að verða búin og þeir vita að sjálfbær græn orka á eftir að stórhækka í verði á næstu árum. Til þessa beita þeir öllum ráðum og spila á græðgi og misskilinn metnað einstaklinga og sveitarfélaga. Ekkert er eins ábatasamt fyrir auðhringi eins og skuldsettir viðskiptaaðilar. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ vann kosningasigur með pípuverksmiðju á stefnuskránni og með fyrirfram fjárfestingum vegna hennar og væntanlegrar álbræðslu. Þeir byggðu m.a. höfn fyrir pípuverksmiðjuna (og fleira) en þurfa nú 1000 milljónir til að byggja aðra höfn. Fjárfestingarnar blasa líka við í nýjum íbúðarhverfum í Njarðvíkum og í Garði. Þeir eru búnir að missa sjálfstæði sitt til að taka ákvarðanir til langs tíma og reyna nú að selja allt sem þeir geta selt bara til að eiga fyrir næstu afborgun.
Þetta er baneitruð blanda!
Recent Comments