Sú var tíðin að tölvubrellur voru ofarlega í umræðunni eftir góða hasarmynd. Þannig er þetta ekki lengur því tölvubrellur eru væntanlega notaðar í öllum hasarmyndum, maður bara veit ekki hvað eru tölvubrellur og hvað ekki. Það er helst að maður viti það í hreinum teiknimyndum eins og Tinkerbell og Wall E.
Avatar er nánast ein tæknibrella út í gegn. Ein frábær tæknibrella. Enda gerist myndin öll á plánetunni Pandora þar sem Navi-menn búa en eins og kunnugt er þá búum við ekki enn yfir tækni til að fara þangað og taka upp "on location." Það magnaða er að þrátt fyrir framandi umhverfi og aldeilis ótrúlega náttúrufegurð sem er allt öðruvísi en við eigum að venjast þá gleymir maður því og finnst þetta bara nokkuð eðlilegt. Skógurinn er einskonar jólasveina- eða álfaskógur, - bara enn flottari.
Mér hættir til að fá væmnivelgju ef svo ber undir en ekki þarna. Það er vegna þess að myndin gengur ekki útá brellurnar. Þær eru ekki í forgrunni. Skógurinn er bara svona og drekarnir líka. Þeir eru ótrúlega glæsilegir en það er ekki aðalatriði heldur hitt að þeir hafa hlutverki að gegna. Navi-fólkið er líka afar glæsilegt og mennirnir sem taka á sig Navi-gervin eru alveg eins og þeir en þó þannig að maður þekkir karakterinn. Myndin er hreint út sagt ótrúlega flott og falleg.
Og ekki spillir 3D fyrir. En eins og með annað sem varðar tæknina er 3D ekki gert að ódýrri brellu þar sem hlutir eru látnir fljúga í andlitið á manni. Það myndi trufla upplifunina. Gleraugun eru frekar óþægileg en samt ekki eins óþægileg og pappírsgleraugun sem maður fékk í gamla daga. Og ekki bætir úr þegar maður þarf að setja þau yfir önnur gleraugu. En þessu gleymir maður eins og eðlilegt er þegar maður er staddur í miðju algleymi.
Þótt efni myndarinnar sé ekki frumlegt í sjálfu sér, maður hefur séð þetta allt áður, þá eru þarna þættir sem hafa þegar valdið deilum og jafnvel verið fordæmdir. Mennirnir í myndinni ráðast á Navi-fólkið bara vegna þess að það býr á svæði sem er fullt af "hardobtainium" efni eða einhverju álíka. Það er ekki búin til gerviástæða fyrir árásinni þannig að Navi-fólkið líti út sem vonda fólkið. Þvert á móti er þetta fólk eins friðsamt og yndislegt og hægt er án þess að maður kasti upp. Í myndinni eru hermennirnir mótíveraðir með því að það dugi ekkert nema terror á þessa terrorista (Navi-fólkið) og margt fleira er nánast bein tilvitnun í Vietnam, Íraq og GWB. Ameríski herinn hefur varla fjármagnað þessa mynd.
James Cameron á ágætar myndir á 100 bestu listum kvikmyndanna. Flestar hasar- og/eða spennumyndir. Það á þó ekki við um Titanic sem er sú mynd hans sem hefur gert það best og sem mér verður flökurt yfir. Í AVATAR leikur Sigorey Weaver eitt aðalhlutverkið og tengir mann skemmtilega við eina af þessum myndum, Aliens frá 1986.
AVATAR er með 8.9 í einkun á IMDB þegar þetta er skrifað og er á í flokki 10 mynda eða svo sem hafa fengið þá einkun eða meira. Það er því ekki íoviðeigandi að ég gefi henni 4 stjörnur af 4 mögulegum. Ólafur Torfason gaf henni 4.5, en hann hefur aldrei gefið meira en 4 til þessa.
Recent Comments