Jo Nesbo er afkastamikill norskur rithöfundur. Hann hefur fengið margar viðurkenningar og verið þýddur á yfir 30 tungumál. Þótt hann hafi skrifað mest af glæpasögum þá hefur hann líka reynt sig við barnasögur o.fl. Hann er hagfræðingur að mennt og áhugamaður um tónlist. Í glæpasögunum heldur hann sig að mestu við rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole. Ekki mjög norskt nafn það en Harry er í stórum dráttum á sama aldri (langt kominn í fertugt) og eins í útliti og Jo sjálfur. Sennilega lifir Jo þó heilbrigðara lífi en Harry, sem er dálítið blautur og á við samskiptavandamál að stríða gagnvart öðru fólki. Bókin kom út í íslenskri þýðingu árið 2009.
Bókin Rauðbrystingur fjallar um nýnasistaplott í Oslo um að drepa fyrrum samherja í síðari heimsstyrjöldinni og ekki er upplýst fyrr en nánast á síðustu síðunni hver stendur fyrir aðgerðinni og hvers vegna. Mér fannst sagan dálítið langdregin á köflum en það er ekki alveg að marka því ég hef ekki lesið bók um Harry Hole áður. Það er trúlega með hann eins og Erlend Sveinsson hans Arnaldar Indriða að hluti ánægjunnar við lestur sögunnar er að fylgjast með þrautum og þroska söguhetjunnar. Harry á sér t.d. nokkuð brogaða fortíð þegar hér er komið sögu sem ég þekki ekki neitt.
Það er ekki síst sagnfræðilegi þátturinn í bókinni sem ég hef gaman að. Bókin fjallar að hluta um þá sem aðhylltust nasisma og störfuðu með hernámsliðinu og Quisling á stríðsárunum í Noregi. Það kemur t.d. í ljós að um 1500 Norðmenn gerðust sjálfboðaliðar í þýska hernum og börðust m.a. á austurvígstöðvunum við Leningrad og að eftir stríðið stóð til að kæra um 100 þús manns fyrir landráð. Það var þó fallið frá því en svipað og hér á landi skilst mér að þessi kafli sögunnar hafi ekki verið gerður almennilega upp í Noregi.
Frásögnin berst m.a. til Austurríkis og Suður Afríku þar sem atburðir gerast ýmist í nútiðinni eða í fortíðinni. Ég þekki fremur lítið til á þeim slóðum en það gefur sögunni aukið gildi í mínum huga að ég þekki lauslega til sumra staðsetninga í sögunni. Harry Hole er fæddur í Oppsala hverfinu í Oslo og hann býr í grennd við Bisletleikvanginn. Villuhverfið við Holmenkollen kemur við sögu og Harry þarf að rannsaka atburði sem gerast í grennd við Stavern. Ég hef komið til allara þessara staða og man nokkurnvegin hvernig umhverfið er. Ég eyddi líka góðum degi fyrir framan utanríkisráðuneytið í Oslo, en þangað berst sagan einnig.
Bókin fær 3 stjörnur af 4 hjá mér ***
Recent Comments