Ég byrjaði að lesa blogg og blogga dálítið sjálfur haustið 2004 . Þetta voru gósentímar í blogginu þegar hver dagur byrjaði með ævintýraferðum í boði bloggara um allan heim. Þar fékk maður að taka þátt í ástum og sorgum einstaklinga við margvíslegar og stundum ótrúlega framandi aðstæður. Bloggið hennar Riverbend frá Bagdad var t.d þrælmagnað og var reyndar gefið út í bókarformi síðar. Það var svo vel skrifað að það þurfti ekki einu sinni að endurskrifa það. Riverbend flúði með fjölskyldu sinni til Sýrlands og hætti að blogga fyrir um tveimur árum. Hvað skyldi hún vera að sýsla núna?
Fljótlega rakst ég líka á Íslandskonuna, sem kallaði sig Selinn á þessum árum ef ég man rétt. Hún var þegar orðin virtur og víðlesinn bloggari sem hafði sér m.a. til ágætis að vera námsmaður í Debrecen, þar sem Kári var að hefja nám. Þau Kári voru líka skólasystkini úr Versló og Kári talaði þannig um hana að mér varð strax hlýtt til hennar þótt ég þekkti hana ekkert. Í sem skemmstu máli sagt þá hef ég síðan átt margar frábærar stundir í hennar boði. En þetta var ekki alveg þrautarlaust.
Í gamladaga, áður en Fésbókin kom til sögunnar, þá var maður ekki að abbast uppá ókunnugt fólk. Og ókunnugt fólk var í þá tíð skilgreint öðruvísi en það er í dag. Það voru allir sem voru ekki beinir kunningjar eða vinir. Maður gat t.d. verið kunnugur einhverjum eða jafnvel málkunnugur en hann var ókunnur maður að því leyti að maður yrti ekki á hann bara si svona. En Fésbókin breytti þessu öllu.
Þessu var svipað farið á blogginu, - amk með mig. Ég var feiminn við að kíkja inn til fólks og fannst hálfpartinn að ég væri einhverskonar peeping Tom. Þess vegna var ég ekkert að skilja eftir comment í tíma og ótíma og lét fara lítið fyrir mér. Þetta átti sérstaklega við þegar ég leit inn til fólks sem ég þekkti og leiddist þaðan til fólks sem ég þekkti ekki neitt.
Og þarna hafði Íslandskonan sérstöðu. Til viðbótar við að ég þekkti hana ekki neitt þá skrifaði hún stundum um þannig hluti að mér fannst ég ekki bara vera peeping Tom heldur algjör perri til viðbótar. Það gæti ekki verið í lagi að einstæður kall uppá Íslandi væri að kikja á unga konu í Ungverjalandi sem ekki uggði að sér. Og til að sem minnst bæri á mér þá slökkti ég ljósin, stillti birtuna á skjánum niður og las bloggið hennar bara með öðru auganu úr dálítilli fjarlægð.
Nú er best að segja frá því að Íslandskonan skrifaði einlæga, opinskáa og mjög skemmtilega pistla um sig og sitt daglega líf. Hún skrifaði um lestur og próf, um, flugur, flugnabit og flugnadráp, um hitann og kuldann, um kyndinguna og um Ungverja, um handbolta, fótbolta, vinina og DaVincy. Hún skrifaði líka um partý og fyllirí og timburmenn og þá fannst mér að nú ætti ég kannske að hætta að glápa. Hefði kannske betur gert það en þá hefði ég misst af því að hún skrifaði um brækur, túrtappa og brjóstahöld, um píkur og harðar geirvörtur og um borðadans og klósettferðir í TB. Og mér finnst alveg óborganlegt að hafa ekki misst neinu af þessu öllu saman.
Í fyrra gafst mér svo loksins tækifæri til að hitta Íslandskonuna, sem ég hef reyndar kallað TB-drottninguna, face to face. Ég settist niður með henni á Palma og játaði syndir mínar hreinskilnislega. Hún horfði brosandi á mig, leiðrétti frásögn mína af sögunum hennar annað veifið og sagði svo jæja kallinn. Og ég held hún hafi meint, - jæja kallinn. Alla vega leið mér betur og hef síðan verið laus við þetta nagandi samviskubit sem hefur þjáð mig síðan 2004.
Íslandskonan er að taka við prófskýrteininu sínu í Debrecen núna. Hún er í raun hætt að blogga fyrir nokkru síðan. Innan tíðar hverfur hún trúlega af Fésinu líka. Þannig fer þetta oftast hjá fólki þegar það hættir námi. Innan tíðar tekur alvara lífsins við eins og hún birtist launafólki. Sum störf takmarka líka það hvað segja má á opnum vettvangi. Og kannske koma svo kall og börn og þá verður í nógu að snúast.
Í dag er sólskin og 24° hiti í Debrecen ef marka má norsku veðurstofuna. Sólskinið gerir ekki bara útskriftardaginn betri heldur mun það skína alltaf þegar hugurinn reikar til baka í formi minninga. Til hamingju með daginn Íslandskona og megi sólin ríkja í lífi þínu. Um leið þakka ég þér fyrir samveruna í þessi 5 ár sem ég hef fengið að njóta hennar á blogginu. Ég bæði sé og heyri að þín verður sárt saknað. Húrra fyrir þér.
Recent Comments