Sumarið hefur verið með eindæmum gott hér í Reykjavík. Júnímánuður var sá hlýjast frá upphafi mælinga, júlí jafnaði það sem mælst hefur áður, ágúst meðal þeirra hlýjustu og samanlagt eru þessir þrír mánuðir þeir hlýjustu frá upphafi. Vindáttin hefur verið vestlæg og það hefur verið þurrt og sólríkt þannig að veður hefur verið með eindæmum gott til útivistar. Mér fannst vorið hinsvegar vera fremur svalt og vindasamt þó það komi varla fram á mælingum. Það gæti mótast af því að ég fékk langvinna flensu í mars og apríl og var á sama tíma að sinna fyrstu hundunum sem hér voru í gistingu.
Það er einmitt vegna hundanna sem ég hef verið meira útivið í sumar en undanfarin sumur og vegna veðurfarsins nýtur maður náttúrunnar betur en ella. Móarnir í kringum húsið hafa verið sérlega fallegir og hreint yndi að skoða þessi litlu fallegu blóm sem íslensk náttúra bíður uppá. Ég er svo heppinn að einn af íbúunum í hverfinu hér fyrir ofan er með hund, gengur oft hér um hlaðið og er jafnframt mjög fróður um íslensku flóruna. Það má segja að hann hafi komið mér á lagið með að skoða blómin. Það varð til þess að ég keypti mér plöntuhandbók og er nú orðinn margs vísari um nágrenni mitt.
Nú eru komnir haustlitir en þá setur guli liturinn mark sitt á umhverfið í Dofra. Haustinu fylgir oft eilítið „traurig“ stemming og söknuður eftir björtum nóttum, sumarfríi og stuttbuxum. Það er þó varla hægt að segja að þannig sé þetta hér í Dofra enda var síðastliðinn vetur alveg frábær. Bæði las ég margar sérstaklega góðar bækur og sótti marga góða og skemmtilega fyrirlestra í Háskólanum, Reykjavíkur Akademíunni og á Þjóðminjasafninu. Í heildina var þetta einn skemmtilegasti vetur sem ég man eftir og engin ástæða til að ætla að veturinn framundan verði ekki skemmtilegur líka.
Recent Comments