Fyrir jólin keypti ég ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson. Það lá beint við því undanfarin 2-3 ár hef ég haft mikla ánægju af því að lesa mér til í mannkynssögu. Og ekki bara að lesa mér til heldur horfi ég talsvert á sögulegt efni í sjónvarpinu. Bæði BBC og Channel 4 ásamt History channel og Discovery channel bjóða upp á mikið af sérlega góðu sögulegu efni. Bresku stöðvarnar flytja auðvitað mest af efni sem snertir sögu Englands en það efni er snar þáttur í sögu Evrópu allt frá árinu 43 AD þegar Rómverjar lögðu landið undir sig.
Fyrir menn eins og mig sem hafa takmarkaða sögulega þekkingu er alveg prýðilegt að afla sér grunnþekkingar á tilteknum einstaklingum. Það staðsetur mann í sögunni og það er einfaldara að kynnast tiltekinni persónu en að leggja allan heiminn undir. Á síðasta ári var t.d. 200 ára dánarafmæli Darwins og 150 ár síðan Origin of the Spieces kom út. Af því tilefni var fjallað ítarlega um Darwin frá ýmsum sjónarhornum og reyndar um það hver staða þjóðfélags og vísinda var á þessum tíma. Einnig var fjallað um önnur stórmenni í vísindasögunni frá Newton til okkar daga og þjóðfélagið á þeirra tímum.
Á síðast ári voru 500 ár síðan Hinrik IIIV tók við konungdómi og hann var vikulegur gestur hjá mér allt árið nema yfir hásumarið. Mér fannst ég aftur og aftur vita allt um hann en þá kom ný þáttaröð sem varpaði nýju ljósi á hann og hans samtíð. Árið áður (2008) voru liðin 450 ár síðan Elizabeth dóttir hans var krýnd og það fór ekki framhjá Sky-áskrifanda. Af einhverju orsökum, ég man ekki hverjum, var fjallað mikið um kaptein Cook og um sögu breska flotans á síðast ári. Það opnaði aldeilis margar glugga.
En eins og ég vildi sagt hafa þá er Snorri orðin svona varða í minni fátæklegu söguskoðun. Eins og oft vill verða þá er ekki ein báran stök og ég hef það sem af er þessu ári hlustað á magnaða fyrirlestra um Gissur Þorvaldsson, Guðmund góða Arason og um goðaveldið ásamt því að lesa fína bók Ólafs Hanssonar, míns gamla kennara, um Gissur og Sturlungaöldina.
Þekking mín á Sturlungaöldinni og aðalpersónum hennar var afar fátækleg enda ekki verið við henni hróflað síðan í MR. En það er í raun allt í lagi því sagnfræðingar hafa að meiru eða minna leyti endurskrifað sögu tímabilsins síðan ég las um það síðast. Mín þekking var að mestu mótuð af söguskýringum Jónasar frá Hriflu og Jóns Aðils en þeirra skýringarvoru byggðar á rómantístu stefnunni og sjálfstæðisbaráttunni. Þeir hafa átt manna mestan þátt í að gera Gissur Þorvaldsson að mesta skúrki samanlagðrar Íslandssögunnar, manninum sem drap Snorra og tældi okkur til að afsala okkur sjálfstæði og ganga Noregskonungi á hönd árið 1262.
Hvað sem þessu líður er ljóst að ástandið á Íslandi var orðið algjörlega óviðunandi. Allt traust og siðferði og meira að segja ættarhollustan, var fyrir bí. Engir samningar voru virtir og morð og víg voru aðalatvinna talsvert margar manna. Menn voru á sífelldum þeytingi um allt landið í stórum hópum (allt að 1500 manns) nema rétt um há sláttinn virðist vera. Margir höfðingjanna höfðu dvalist í Noregi og sumir voru skyldir konungunum eins og Jón Loftsson og hans afkomendur. Þegar leið að miðri 13. öldinni varð æ algengara að deilimál væru lögð í dóm konungs og jafnvel það dugði ekki til.
Snorri ólst upp í Odda hjá Jóni Loftssyni en talið er að í Odda hafi verið eitt helsta menntasetur á landinu ásamt með Skálholti. Óskar gerir mikið úr því að Snorri hafi hlotið menntun á við það sem best var í Evrópu. Hann talar um Snorra sem heimsborgara af Evrópskri fyrirmynd með tengingu við norsku hirðina gegnum skyldleika Jóns Loftssonar við Magnús konung brefætta sem rakti ættir sínar til Haraldar hárfagra.
Eftir lestur bókarinnar get ég þó ekki alveg séð þetta svona. Snorri kvæntist til fjár um tvítugt og fór ekki utan fyrr en um fertugt þá búsettur í Reykholti, stórauðugur, margfaldur goðorðsmaður og lögsögumaður. Það hljóta að hafa verið mikil viðbrigði fyrir einn helsta höfðingja íslenskan að koma til Noregs og dvelja þar með hirðum konungs og Skúla jarls. Þótt byggingarefni Norðmanna væri mest timbur eins og hjá stórhöfðingjum á Íslandi þá hafa húsakynni öll verið stærri, hærri, bjartari og vandaðri hjá höfðingjum í Noregi. Auk þessu höfðu menn byggt miklar steinbyggingar eins og dómkirkjuna og biskupssetrið í Niðarósi ofl.
Ég hallast að því að heimsborgarar verði ekki til nema við sérstakar ytri aðstæður. Meðal þess sem til þarf er gott veður, þokkaleg húsakynni og logn. Það getur enginn skriðið út úr lágkúrulegu jarðhúsi, dustað músaskítinn og mygluna af fötunum, rétt úr sér og gerst heimsborgari. Hitastigið þarf að vera í grennd við 20° og vindgnauð í lágmarki. Heimsborgari getur ekki hnípt hokinn undir kofavegg í gjólunni með kuldadropa á nefinu. Fornleyfarannsóknir í Reykholti benda að vísu til þess að þar hafi menn búið í húsum sem byggð voru ofan jarðar en glæsihús hafa það nú varla verið miðað við það sem Snorri kynntist í Noregi.
Snorri fór ekki utan aftur fyrr en tuttugu árum eftir fyrstu förina þá að verða sextugur. Það bendir etv til þess að hann hafi unað sér betur sem höfðingi meðal kotunga en sem vel virtur menntamaður meðal sér hærra settra manna. Hvað sem því líður þá kemur hann mér fyrir sjónir sem góðgjarn og fremur friðelskandi maður sem var minnugur og fróður, hafði styrka rödd og var skýrmæltur með mikla persónutöfra. Menn virðast hafa laðast að honum og viljað treysta honum fyrir sínum málum stórum og smáum. Þetta var auðvitað uppskrift af öfund og uppreisn á tímum þegar stjórnkerfi landsins var hrunið og stjórnlaust ofbeldi réði ríkjum.
Óskar rekur á skýran hátt marga atburði sem varða ævi Snorra og nauðsynlegt er að vita nokkur deili á til að öðlast skilning á sögunni. Þetta er aldeilis nauðsynlegt fyrir fáfróðan lesandann og auk þess gerir hann ótt og títt grein fyrir ættartenglsum með litlum ættartölum. Þetta er frábært og gefur bókinni miklu meira gildi en ella væri. Ég held það geti alveg verið einhverjir hnökrar á framsetningu og samfellu í textanum en það hrjáir mig ekki.
Bókin fær fjórar stjörnur af fjórum
Myndirnar sýna teikningu af Snorra, biskupsstofuna sem Snorri heimsótti í Niðarósi 1219 með Dómkirkjuna í baksýn, dómkirkjuna eins og hún var eftir að dálítið var byggt við hana skömmu eftir veru Snorra í Niðarósi og grunnmynd af fornleifauppgreftri í Reykholti.
P.S: Ég get ekki stilt mig um að sýna hvernig ég rek ætt mína til Noregskonunga:
Magnús konungur berfættur
|
1073-1103
|
Þóra Magnúsdóttir (óskilgetin)
|
1100-1175
|
Jón Loftsson
|
1124-1197
|
Sólveig Jónsdóttir
|
1151 - 1193
|
Þorlákur Guðmundsson
|
1193
|
Ásbjörg Þorláksdóttir
|
1215
|
Guðný Helgadóttir
|
1245 - 1330
|
Loftur Þórðarson
|
1280 - 1355
|
Ingiríður Loftsdóttir
|
1320
|
Margrét Eiríksdóttir
|
1350
|
Magnús Benediktsson
|
1400 - 1478
|
Brynjólfur Magnússon
|
1440
|
Magnús Brynjólfsson
|
1490
|
Guðrún Magnúsdóttir
|
1540
|
Þórný Narfadóttir
|
1575
|
Eiríkur Gíslason
|
1610 - 1660
|
Aldís Eiríksdóttir
|
1640
|
Gísli Andrésson
|
1665 - 1710
|
Guðrún Gísladóttir
|
1693
|
Þorvaldur Bjarnason
|
1728
|
Jóhannes Þorvaldsson
|
1769 - 1820
|
Þorgerður Jóhannesdóttir
|
1808 - 1880
|
Ingibjörg Gísladóttir
|
1831 - 1913
|
Guðlaugur Jónsson
|
1865 - 1921
|
Jón Guðlaugsson
|
1909 - 2006
|
Guðlaugur Gauti Jónsson
|
1941
|
Recent Comments