Kosningar í BNA eru kafli út af fyrir sig og ég hef oft velt fyrir mér hversu lýðræðislegar þær séu. Ég veit svosum ekki hvenær þetta kerfi var tekið upp eða hvernig það hefurþróast í áranna rás (maður segir ekki aldanna rás um atburði í BNA því þau eru jú bara 250 ára gömul). En ég veit að eitt af markimiðunum og kannske það mikilvægasta var að koma í veg fyrir til yrði ofursterkt þjóðhöfðingjavald. Kosningakerfið byggir á ótal varnöglum og flækjum til að veikja miðstýringu en veikir um leið meirihlutalýðræðið svo um munar. Meirihlutalýðræði hefur sína galla en kanarnir hafa gengið svo langt í óttanum við vald að ofan að lýðræðið hefu orðið að víkja.
Fyrir það fyrsta er kerfið flókið fyrirbæri sem á að víst að tryggja valdajafnvægi milli forsetans, ríkjanna 50 og þjóðarinnar sem í landinu býr. En hvernig þætti okkur að kosnir væru 60 þingmenn með tveggja ára kjörtímabil til fulltrúadeildar eftir sýslum sem skipt væri upp í einmenningskjördæmi (hreppa) sem tækju breytingum á 10 ára fresti eftir fjölda kjósenda og sem gætu auk þess færst milli sýslna? Á sama tíma yrðu kosnir 7 eða 8 fulltrúar með 6 ára kjörtímabil til öldungadeildar þar sem sætu 23 þingmenn, einn fyrir hverja sýslu og með mjög mismikið atkvæðamagn á bak við sig. Og ennfremur yurðu kosnir sýslustjóri, lögreglustjóri ásamt sýslustjórn og sveitarstjórn og svona sitthvað sem okkur dettur í hug hverju sinni.
Í annaðhvert skipti (á 4 ára fresti) gætum við um leið kosið okkur forseta, en nei, ekki þó beinni kosningu. Okkur til ánægjuauka myndum við kjósa kjörmenn í einmenningskjördæmum í hreppunum og kjörmenninrnir mydu síðan kjósa forsetann. Vægi atkvæða er misjafnt eftir kjördæmum og því alls ekki ólíklegt að frambjóðandi nái kosningu þótt meirihluti kjósenda hafi greitt atkvæði gegn þeim kjörmönnum sem kjósa hann. Og til að gera þetta enn skemmtilegra gætum við í hverjum kosningum kosið um ýmis málefni bæði á sveitarstjórnar- og landsvettvangi. Þetta gæti t.d. verið deiliskipulag á blettinum sunnanvert við húsið hennar Gróu Sigurðar, svæðisskipulag íslenskra þjóðlendna eða tillaga um að banna Orku að nota þennan ljóta rauða einkennislit sem þeir nota.
Kjörseðillinn í svona kosningum er nánast heil bók eins og menn muna eftir frá kosningunum árið 2000 þegar GWB sigraði Al Gore á lögfræðilegu rothöggi í hæstarétti sem líka lét eyða gögnunum þannig að örugglega yrði ekki hægt að komast að hinu rétta. Aldrei að eilífu! Það yrði áreiðanlega ekki 80% þátttaka í svona kosningum á Íslandi fremur en í BNA.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.