Ég er nokkuð viss um að ég skrifaði pistil um þessa bók haustið 2008 þegar ég las hana. Ég man meira að segja sumt af því sem ég skrifaði. En hvað varð af pistlinum? Það hef ég ekki hugmynd um. Þegar ég var að skoða bókalistann á Dofrabloggi sá ég bara að þessi bók var ekki þar. Mér finnst hinsvegar gaman að rifja upp samveru mína með ýmsum þeim bókum sem ég hef lesið undanfarin ár svo nú bæti ég Julie Hecht á listann.
Það sem ég man einna best frá því ég las bókina var hvernig ég sá höfundinn fyrir mér í huganum. Það kemur fram í bókinni að Julie Hecht er um fimmtugt. Ég sá hana þó fyrir mér sem gamla sérvitra kellingu. Hún er í bókinni, ég veit ekki hvort hún er það í raun, fanatísk grænmetisæta og á kafi í allarahanda hómópatíu, hjátrú og neikvæðni gagnvart öllu og öllum. Ég fann á þeim tíma engar ljósmyndir af henni á netinu nema myndina sem er innan í bókarkápunni. Það er hinsvegar mynd af unglegri ljóshærðri konu sem er vel á sig komin. Af henni stafar birta og hressleiki sem flestir gætu verið stoltir af.
Julie skrifar sérstakan stíl og um sérkennilega atburði. Stíllinn er svona „út og suður úr einu í annað“ stíll sem var mér nýstárlegur og skemmtilegur. Hún skrifar líka stundum um ekki neitt sem er líka skemmtilegt hjá henni. M.a. vegna þess hversu langt er síðan ég las bókina man ég ekki allt of vel einstök atriði úr bókinni. Bókin fór svo til Noregs að mínum lestri loknum þannig að ég hef hana ekki tiltæka til að lesa aftur. Ég læt því fylgja stuttan dóm um bókina í Salon.com þegar bókin var kosin „Editors Choise.“ Í þessari umsögn kemur margt það fram sem ég hefði viljað segja.
Bókin fær mín bestu meðmæli 4/4
http://www.salon.com/entertainment/critics_picks/2008/07/05/july5
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.