Hrunið var auðvitað alveg sér kapítuli og eftir því sem frá líður nenni ég síður að velta mér uppúr ástæðum fyrir því, hverjum það er að kenna o.s.frv. Ég bíð bara eftir að réttarkerfið virki. Eftir hrunið höfum við hægt og sígandi verið að vinna okkur út úr afleiðingum hrunsins og þjóðin hefur tekið á sig álögur og skuldbindingar með ótrúlegu æðruleysi. En mitt í þessu ferli, þegar ég vakna tiltölulega sæll og glaður að morgni og held að nú sé þetta allt að koma, að etv hafi þjóðfélagið breyst til batnaðar, þá dynja á manni fréttir sem valda því að mér líður eins og stúlkunni í myndskeiðinu hér að ofan. Dæmi:
- Hitaveita Reykjavíkur og síðar OR var einskonar tákn um öryggi og bjarta framtíð Borgarinnar. Allt í einu og án viðvaranna kemur í ljós að það er búið að setja OR á hausinn. Þetta gerðu ekki útrásarapar heldur kjörnir fulltrúar í Borgarstjórn Reykjavíkur. Þeir sátu sjálfir í eigin persónu í stjórn OR, réðu framkvæmdastjórann og einn þeirra var stjórnarformaður.
- Glæpaferill fyrrverandi biskups var að mestu gleymdur almenningi og maður hélt að þjóðfélagið og stofnanir þess hefðu breyst nægjanlega mikið til að svona gæti ekki gerst aftur. Viðbrögð núverandi biskups við nýjum upplýsingum, sem staðfesta brot gamla biskupsins svo ekki verður lengur efast um þau, sýna allt er við sama heygarðshornið í kirkjunni.
- Ég var farinn að telja mér trú um að með sölu á eignum Reykjanesbæjar og útleigu á afnotarétti auðlinda sem jafngildir sölu, auðlinda sem ættu að vera í þjóðareign, þá væri Árni Sigfússon búinn að koma bænum sínum fyrir horn. Það tók bara eitt augnablik (einn fréttatíma) til að upplýsa um að í Reykjanesbæ væri allt á kúpunni.
- Kristján Möller notaði síðustu mínúturnar á ráðherrastól í einhverskonar hefndaraðgerð gegn ríkisstjórninni og samstarfsfólki sínum á þingi. Hann setti í gang ferli sem átti að auðvelda Árna í Keflavík að semja við grunsamlegt fyrirtæki um mjög grunsamlega starfsemi sem enginn virðist vita mikið um.
- Það var búið að lofa okkur alvöru stjórnlagaþingi þar sem sæu tugir fulltrúa með umboð beint frá þjóðinni og að Alþingi hefði enga þar enga aðkomu. Nú heitir þetta ráðgefandi stjórnlagasamkoma.
Megi þjóðin mín eiga góðan dag í dag.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.