Sumarið hefur verið með eindæmum gott hér í Reykjavík. Júnímánuður var sá hlýjast frá upphafi mælinga og ég hef ástæðu til að ætla að svo verði líka með júlí mánuð. Meðalhitinn er nú ekki beint þannig að manni svelgist á tölunum, - 11,4° fyrir júní. En meðalhitinn er ekki endilega góður mælikvarði á það hvernig maður upplifir veðrið. Í júní og það sem af er júlí hefur hitinn mjög oft farið upp í 16-17° yfir daginn og mælirinn hjá mér, sem er staðsettur í skugga þar sem vel loftar um hann, hefur sýnt yfir 20° dag eftir dag. Vindáttin hefur verið vestlæg og það hefur verið þurrt og sólríkt þannig að veður hefur verið með eindæmum gott til útivistar. Mér fannst vorið hinsvegar vera fremur svalt og vindasamt þó það komi varla fram á mælingum. Það gæti mótast af því að ég fékk langvinna flensu í mars og apríl og var á sama tíma að sinna fyrstu hundunum sem hér voru í gistingu.
Það er einmitt vegna hundanna sem ég hef verið meira útivið í sumar en undanfarin sumur og vegna veðurfarsins nýtur maður náttúrunnar betur en ella. Móarnir í kringum húsið hafa verið sérlega fallegir og hreint yndi að skoða þessi litlu fallegu blóm sem íslensk náttúra bíður uppá. Ég er svo heppinn að einn af íbúunum í hverfinu hér fyrir ofan er með hund, gengur oft hér um hlaðið og er jafnframt mjög fróður um íslensku flóruna. Það má segja að hann hafi komið mér á lagið með að skoða blómin. Það varð til þess að ég keypti mér plöntuhandbók og er nú orðinn margs vísari um nágrenni mitt.
Nú hefur veðurfarið breyst í bili, vindáttin orðin austlæg, hitastigið hefur lækkað um nokkrar gráður (sem skiptir máli þegar hitinn er ekki meiri en raunin er) og spáð er skúraleiðingum amk fram yfir helgi.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.