Englendingar fengu heldur betur skell á þessu móti. Jafntefli í þokkalegum baráttuleik gegn BNA, sem þeir voru óheppnir að vinna ekki, jafntefli í lélegum leik gegn Alsír og 1-0 sigur í lélegum leik gegn arfaslökum Slóvenum. Þetta gaf þeim annað sætið í riðlinum á eftir BNA. Á eftir BNA. Þeir báru sig bara nokkuð vel, töldu sig hafa spilað frábærlega gegn Slóveníu og voru hvergi bangnir að mæta Þjóðverjum í fyrsta leik sínum í 16 liða úrslitum.
Og Þjóðverjar niðurlægðu þá með 4-1 sigri. Munurinn á liðunum var svo mikill og augljós að meira að segja enska pressan féll ekki í þá gryfju að kenna utanaðkomandi aðstæðum um ósigurinn. Hún kenndi ekki einusinni markinu sem dæmt var af Englendingum um ósigurinn. Staðreyndin er sú að þótt enska Premier deildin sé bæði öflug og skemmtileg þá eru Englendingar slakir í fótbolta. Það eru erlendar stórstjörnur sem gera deildina það sem hún er.
Enski boltinn lifir enn á fornri frægð og svo því að fótbolti er uppruninn í Englandi. En England hefur ekki komist á HM í 3 af síðustu 9 skiptum (36 ár) og aðeins unnið einu sinni á umdeildu marki á heimavelli 1966. Þýskaland og Ítali hafa verið með í öll 9 skiptin, Spánn í 8 skipti og meira að segja Svíþjóð hefur verið jafnoft með og England.
Enska pressan fjallar þó mikið um að nú þurfi að tæknivæða dómgæsluna í boltanum eftir tvenn hrikaleg dómaramistök og mörg smærri sem örugglega hafa haft áhrif á einhver úrslit. Mín skoðun er sú að það beri að fara varlega í því.
- Í fyrsta lagi er ófrávíkjanlegt að sömu reglur gildi allsstaðar og að umgjörðin sé þannig að nánast allir geti haldið viðurkennd mót. Ég sé t.d. fyrir mér að hér heima myndi það valda ómældum erfiðleikum ef nota þarf flókinn og dýran tæknibúnað við leiki á Íslandsmóti og í Evrópukeppni.
- Dómgæsla þar sem mikið er stuðst við tæknibúnað hefur tilhneigingu til að hægja á leikjum. Fáir gera sér grein fyrir því að í síðasta Superbowl leiknum í BNA, sem tók um 3 tíma, var boltinn í leik í 11 mínútur. Ellefu mínútur í 360 mínútna leik. Á HM sér maður jafnvel votta fyrir því að leikmenn séu að gjóa augunum á sýningarskjáina á vellinum til að sjá hvernig þeir koma út.
En í dag er það Holland - Brasilía og til gamans má geta þess að Holland hefur verið með á HM í 6 skipti af síðustu 9 en Brasilía auðvitað í öll 18 skiptin sem HM hefur verið haldið. Á morgun er það svo Þýskaland - Argentína, en þessir tveir leikir geta vel verið hinir eiginlegu úrslitaleikir mótsins.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.