Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Peter Carey en áreiðanlega ekki sú síðasta. Carey er margverðlaunaður og mikilsmetinn ástralskur rithöfundur sem býr í BNA, er nokkurn vegin jafnaldri minn og hefur skrifað svo mikið og margt að það er pínulítið bjánalegt að hafa ekki lesið neitt eftir hann. Miðað við þessa bók og dóma og lýsingar á öðrum bókum notar hann líka hárbeittan og dálítið dökkan húmor sem er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Það er vel þess virði að kíkja á heimasíðuna hans.
Bókin byggir að nokkru á sögu Tocqueville nokkurs sem var gegnheill franskur aðalsmaður sem ungur að árum skrifaði bók um stutta ferð sína til Ameríku í kringum 1830, Democracy in America. Þetta er einmitt það sem aðalsmaðurinn okkar, Olivier de Barfleur, gerir líka. Í viðtali um bókina segir Peter að mörg þeirra sjónarmiða sem Olivier talar fyrir í bókinni hans séu þau sömu og Tocqueville setur fram í sinni bók. Þetta las ég eftir að ég las bók Peters og það kom mér á óvart því ég taldi að margt í lýsingunni á Ameríku og hinum stéttlausu Ameríkönum væri paródía á Ameríku dagsins í dag.
Peter stillir semsagt gegnheilum erkiaðalsmanni upp á móti nýfrjálsum, stéttlausum og kóngslausum íbúum hins fyrsta lýðveldis. Allir geta allt, allir mega allt og allir eiga að græða. Enginn er öðrum fremri, vinna og siðsamt kristilegt púrítanalíferni kallast á við metnaðinn til að verða ríkur, eignast land og þræla og reka innfædda af höndum sér. Klíkur koma í stað lénsherra og peningar eru það vald sem opna dyrnar að velgengni. Á einhvern undarlegan máta sér maður fyrir sér þjóðfélagið sem átti eftir að skapa GWB og Söru Palin.
Olivier skilur ekkert í þessu. Hann skilur ekki þessa áherslu á peninga og telur útilokað að hægt sé að skapa listaverk þegar allir þurfa að vinna. En þjónninn hans, ritarinn hans og lífvörður hans, Jack Larrit kallaður Parrot, er venjulegur enskur maður sem hrekkst um í lífinu en spjarar sig jafnvel hvort sem er í Englandi, Ástralíu, Frakklandi eða Ameríku. Hann er jafnvígur á tvö tungumál, hann hefur svo fallega rithönd að eftir er tekið, hann er listamaður af guðsnáð og hin sanna hetja bókarinnar.
Bókin er skrifuð í fyrstu persónu ýmist fyrir munn Oliviers eða Parrots. Framvinda sögunnar, samtvinnun textans og frábær stílbrögð gera bókina aldeilis frábæra skemmtun. Hún er í senn fræðandi, fyndin og djúp þegar það á við. Ég gat varla lagt hana frá mér.
Hiklaust fjórar stjörnur af fjórum. ****
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.