Ég veit ekki hvað þetta er með Bandaríkjamenn. Af hverju eru þeir svona rosalega ofbeldisfullir og paranoid? Þegar þeir skipta um forseta þurfa þeir margar herdeildir af leyniþjónustu-, lögreglu- og hermönnum. Heilu borgarhlutunum er lokað af og stressið slíkt að sjónvarpstækið titrar. Sama á við ef forsetinn vill fara í bíltúr. Bílaröð, mótorhjól og þyrlur þjóta um lokaðar götur og lofthelgi á mörghundruð kílómetra hraða. Ef hægt er að tala um keisara þá er það í BNA.
Mér dettur þetta í hug þegar ég horfi á stjórnarskipti í Englandi. Þetta er svo ótrúlega afslappað og eðlilegt hjá þeim. Brown flytur ræðustúf úti á götu og svo gengur fjölskyldan burt af svæðinu og kemur ekki til baka. Það voru engir stórstælar á "the motorcade" þrír bílar og nokkur mótorhjól með blikkandi ljósum og amk á einum stað keyrðu þeir í öfuga átt eftir einstefnuakstursgötu. Þótt ég geri ráð fyrir að allir gluggar í aðliggjandi húsum hafi verið mannaðir leyniskyttum þá sá maður varla lögregluþjón og engar byssur en einn eða tveir klunnalegir kallar með fráhneppta jakka. Blaðamenn og aðrir áhorfendur voru í um 5 m fjarlægð.
Öfugt við það sem er í BNA þar sem menn halda dauðahaldi í stjórnarskrá sem skrifuð var fyrir meira en 200 árum og tók mið af byssueign og frelsisbaráttu sem enn var í fullum gangi, þá er ekki til skrifuð stjórnarskrá í Englandi. Allt gengur eftir hefðum. Forsætisráðherrann gengur inn um "The king's door" í Buckingham hittir drottninguna og segir af sér. Eftir það er enginn forsætisráðherra í Englandi þar til annar er útnefndur af drottningunni.
Þegar Brown keyrði burt hafði hann engin mótorhjól engin blikkandi ljós og þurfti að bíða á götuljósum eins og hver annar. Cameron kom keyrandi í einkabílnum sínum með einum fylgdarbíl. Þegar hann fór, eftir að hafa tekið að sér að mynda stjórn í "Kissing hands" seremóníu, voru fylgdarbílarnir orðnir tveir en að öðru leyti engar tilfæringar. Hann fylgdi umferðinni, bílar fóru framúr honum, fólk á leið heim á reiðhjólum og mótorhjólum fór framúr beggja megin bílsins og þar sem hann stansaði við ljós þá gekk fólk að bílnum, kíkti inn og tók myndir.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.