Í raun er sekt eða sakleysi að lögum bara lítill hluti þess sem skiptir mál þegar ég reyni að meta hvort menn séu hæfir eða ekki. Ég ætlast til þess að réttarkerfið sjái um að dæma eða sýkna fólk að lögum og er því ekki allt of upptekinn af því. En mörg þeirra atriða sem ekki varða lög eru matskennd og lúta allt öðrum og erfiðari skilyrðum. Þarna koma t.d. til álita siðferði og dómgreind, athafnir og athafnaleysi, ásetningur og óvitaskapur en líka sönnunarbyrði og sönnunargeta.
Og svona lítur þetta út í mínum huga:
Dómgreind og siðferði er það sem skiptir langmestu máli. Það er útí hött og sýnir algjöran dómgreindar- og siðferðisskort að einstaklingur taki við meira en 25 millj. króna til að heyja prófkjörsbaráttu, jafnvel þótt það sé vegna tvennra kosninga. Það gildir alveg það sama um 15 millj. 10 millj. Ég get svosum ekki nefnt einhverja ákveðna hámarksupphæð en mér finnst 5 millj. vera allt of mikið fyrir eitt prófkjör.
Gerum okkur grein fyrir því að í prófkjörum eru menn að takast á innan flokka. Þeir sem mestu eyða eru jafnframt þeir sem allir þekkja. Það má reikna með að þeir sem eyða 10 millj. í prófkjörsslag leggi út sem nemur 5000-10.000 kr fyrir hvert atkvæði, allt eftir því hve miklu þeir eyða og hve mörg atkvæði þeir fá. Þetta er verðið sem þeir greiða fyrir hvert atkvæði. Það er augljóst að einstaklingur eða fyrirtæki sem hefur rétt frambjóðanda nokkrar milljónir til að kaupa atkvæði fyrir er í nokkuð góðri aðstöðu til að leita til hans með sín mál. Eða bara að hitta frambjóðandann og segja honum frá skoðun sinni á tilteknu máli. Alveg "án nokkurra skuldbindinga" að sjálfsögðu.
Og hvar gefst betra tækifæri til óformlegra skoðanaskipta "án nokkurra skuldbindinga" en í laxveiði eða á ferðalögum í einkaþotum. Og það er ekki verra ef viðkomandi frambjóðandi hefur verið svo elskulegur að þiggja boð um ævintýraferð til framandi staða sem hann hefði aldrei látið sér detta í hug að heimsækja ella. Svona ferðir eru hreinar gjafir og þær hafa áhrif enda segir máltækið: "Æ sér gjöf til gjalda."
Þetta er e.t.v. algengasta aðferðin sem notuð er á vesturlöndum til að hafa áhrif á afstöðu manna til fyrirtækja og málefna almennt en líka til að umbuna fyrir unnin og jafnvel óunnin verk. Svona eru mútur greiddar miklu fremur en að mönnum séu rétt peningabúnt fyrir tiltekna þjónustu.
Ég get ekki tekið undir með fólki sem finnst að allir sem hugsanlega geta talist meðsekir (guilty by association) um dómgreindar- og siðferðisskort eigi að hverfa af vettvangi stjórnmálanna. Eins og málum er háttað í íslenskum stjórnmálum og íslenskri stjórnsýslu tel ég t.d. að það gildi ekki það sama um alla ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hér ríkir ofurvald formanna stjórnmálaflokkanna og innan ríkisstjórnar ber hver ráðherra ábyrgð á sínum málaflokki og á helst ekki að skipta sér af eða tjá sig um málefni annarra ráðherra. Í þessu kerfi er ekki hægt að gera alla ráðherra samábyrga um einstök málefni. Ég get heldur ekki lagt að jöfnu ábyrgð þeirra sem eiga höfundarétt af því kerfi sem hér var komið á og hinna sem ekki tókst að vinda niður af ósköpunum eftir að kerfið var komið í strand.
Ég tel að þeir stjórnmálamenn sem hafa sýnt af sér verulegan dómgreindar- og siðferðisbrest miðað við ofangreint eigi ekki heima á Alþingi. Ég tel líka að þeir séu ekki gjaldgengir til opinberra starfa sem kjörið er til eða ráðið til í næstu 5 ári eða svo (sem er algengur ráðningartím forstöðumanna hjá ríkinu) og að auk þess séu þeir ekki gjaldgengir í tvennum Alþingiskosningum.Það er mikilvægt að átta sig á því að í málum af þessu tagi snýst sönnunarbyrðin við. Þeir stjórnmálamenn sem hafa með hegðun sinni gefið tilefni til þess að vera sakaðir um siðferðis- og dómgreindarbrest þurfa sjálfir að sanna sakleysi sitt. Eðli málsins samkvæmt er oftast illmögulegt að færa fram lagasönnun á afbroti. Einstaklingi sem gegnir ábyrgðarstöðu fyrir samfélagið ber hins vegar að haga sér þannig að það sé yfir vafa hafið að hann þiggi ekki mútur fyrir að ganga erinda sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.