Um helgina geysist Guðlaugur Þór fram á sviðið í Mogga og Fréttablaði til að verja 25 millj kr prófkjörsstyrki. Guðlaugur er einn þeirra stjórnmálamanna sem valda mér því sem ég kalla grautarheilkenni. Þetta lýsir sér þannig að um leið og hann opnar munninn og út úr honum byrjar að streyma orðaflaumur þá verður allt að graut í litla grautarhausnum mínum. Ég fæ heiftarleg grautarheilkenni. Sama á við þegar ég les texta eftir manninn.
Ég las greinina í Fréttablaðinu og það var eins og við manninn mælt. Ég las ekkert nema mótsagnir, fásagnir, margsagnir og hinar og þessar ósamstæðar og bjánalegar fullyrðingar, réttlætingar og útskýringar sem eru bara leðja og standast enga skoðun. Svona virka grautarheilkennin. Lítum á dæmi:
Sp: Af hverju stóðu svona stórkostlegir styrkir þér til boða og af hverju þáðirðu þá?
GÞÞ: Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að menn séu með ákveðnar staðreyndir á hreinu. Það hefur verið mjög misjafnt hvernig hefur verið staðið að þessum prófkjörum. Það er fullkomlega ómögulegt að bera saman til dæmis þessi litlu prófkjör sem rétt yfir þúsund manns taka þátt í eða prófkjörin sem voru hér í Reykjavík sem voru stærstu prófkjörin. Síðan voru menn ekki bókhalds- eða framtalsskyldir... (bla bla bla) ...og það er ekkert hægt að fullyrða um hver hafi verið með mestu styrkina eða stærsta prófkjörið. Það bara vitum við ekki (svar við spurningunni?).
Sp: Ertu að segja að það séu einhverjir frambjóðendur sem hafi ekki skilað fullum upplýsingum um sín prófkjör til Ríkisendurskoðunar?
GÞÞ: Ég er ekki að segja það... bla bla bla (hvað varstu þá að segja?).
Sp: Á sama tíma og þú þáðir þessa styrki, og hafðir einnig milligöngu um að afla Sjálfstæðisflokknum tugmilljóna frá fjármálafyrirtækjum...
GÞÞ: Ég hafði ekki milligöngu um þetta ... Það sem ég gerði hins vegar, var að ég hvatti nokkra aðila sem síðan fóru í fjármálaráð Sjálfstæðisflokksins, að safna peningum... (hvað er milliganga?).
Í viðtalinu kemur fram að hann hafi ekki velt fyrir sér að segja af sér. Ekki einu sinni velt því fyrir sér og svo tekst honum einhvernvegin að blanda Illuga greyinu inn í þetta og gera grín að því að hann hafi fengið 17 millj í styrki en bara náð 5. sætinu og benda á að Obama hafi safnað miklu meiru. En bíddu við.
Obama safnaði um 650 millj dollara prófkjöri og forsetakosningum sem í heild stóð yfir meira en 2 ár með prófkjöri en GÞÞ safnaði 25 millj bara í hvelli. Bandaríkjamenn eru 1000 sinnum fleiri en Íslendingar. Ef miðað er við höfðatölu og gengi í dag þá jafngildir þetta að GÞÞ hafi safnað 200 millj dollara fyrir prófkjör sem stóð yfir í 2-4 vikur í Reykjavík þar sem hann hafði verið borgarfulltrúi, þingmaður og formaður OR. Geri Obama betur.
Það má líka líta öðruvísi á þetta. GÞÞ fékk 5100 atkv. í það sæti sem hann sóttist eftir í prófkjörinu. Það jafngildir því að hann hafi keypt hvert atkvæði á ca 5000 kr. Hvert einasta atkvæði. Hvað hefði maðurinn eiginlega fengið mörg atkvæði ef hann hefði ekki getað keypt þau? Til viðbótar því að vera styrkjakóngurinn þá var hann einn af vinsælustu bónus- og hvataferðalöngum sukkáranna.
Maður eins og ég sem fær grautarheilkenni þegar hann les texta eftir eða hlustar á GÞÞ kallar þetta siðferðis- og dómgreindarbrest á hæsta stigi.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.