Nú þegar öll umræða ætti að snúast um eldgos og afleiðingar þess fyrir einstaklinga og þjóð kemst fátt að nema umræðan um sukk og spillingu, um stórfelld afbrot, ákærur og glæpi. Jafnvel sveitarstjórnarkosningar ná ekki í gegn góðri viku fyrir kosningar. Sennilega myndi engin eftir þeim ef ekki væri fyrir Besta flokkinn (BF).
Fyrir rúmum tveimur vikum olli skoðanakönnun nokkru fjaðrafoki en þar kom fram að BF yrði næststærsti flokkurinn í borgarstjórn með 4 fulltrúa. Ég og margir aðrir héldu að þetta myndi verða til þess að menn hugsuðu sig um og kæmust að þeirri niðurstöðu að nú væri of langt gengið í gríninu. Í fyrradag var birt skoðanakönnun sem gerð var 10 dögum eftir þá fyrri. Þá hafði BF bætt 52,6% (12,3 prósentustig) við fylgi sitt og fengi 6 fulltrúa ef þetta yrðu úrslit kosninga. Frá byrjun apríl hafa allir flokkar tapað fylgi til BF; xD 13% (4 prstig), xS 44% (8 prstig) og xV 30% (3 prstig). Samkvæmt könnun frá 1. mars hefði Jón Gnarr ekki komist í borgarstjórn.
Nánast allir eru steinhissa á þessari þróun og pólitíkusar eru gjörsamlega hvumsa og hafa enga hugmynd um hvernig er hægt að bregðast við þessu. Í raun er líka lítið hægt að bregðast við þessu því fylgi BF byggist ekki á gagnrýni á stefnuskrá einstakra flokka eða framgöngu einstakra frambjóðenda. Gagnrýnin virðist beinast að stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum, - almennt og öllum.
BF og Sylvía NóttFyrir nokkrum árum seti hópur manna í svið gjörninginn um Sylvíu Nótt. Í marga mánuði setti leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir í gervi Sylvíu Nætur mark sitt á íslenskt þjóðlíf þannig að um munaði. Sylvía og Gaukur Úlfarsson (sem er höfundur gjörningsins ásamt Ágústu Evu) voru með sjónavarpsþátt síðari hluta árs 2005 en hápúnktinum var náð þegar Sylvía vann Eurovision keppnina á Íslandi og fór sem fulltrúi Íslands til Aþenu ásamt fríðu föruneyti árið 2006. Þau Sylvía voru raun langt á undan sinni samtíð og tóku fyrir hið upphafna "Séð og heyrt" samfélag sem grasseraði á þessum útrásarárum sem aldrei fyrr. Á Wikipediu segir m.a.; "Silvía's personality is highly affected by narcissism and she sees herself as the most famous and talented person walking on the planet Earth." Ég hélt lengi vel að þetta hefði að meira eða minna leyti farið úr böndunum í sjálfri Eurovision keppninni. Í ljósi þess sem átti eftir að gerast og við vitum núna þá gat gjörningurinn ekki endað öðruvísi en hann gerði.
Þegar Sylvía Nótt var orðin fulltrúi Íslands á erlendum vettvangi varð mörgum sem höfðu haft gaman að uppátækinu nóg um. Ekki síst eftir að hún og hennar fólk gerði í því að ganga fram af öllu og öllum. Eitt er að gera grín og afhjúpa það augljósa annað að vera fulltrúi Ísendinga og viðkvæmra íslenskra atvinnuvega erlendis.
Hvernig endar BF-gjörningurinn?
Teitur Atlason segir m.a.: "Snilldin við Besta flokkinn er að hann afhjúpar fáránleika kosningaloforðanna. Það er bara EINHVERJU lofað fyrir kosningar. Það setjast saman á rökstóla, eitthvað fólk úr flokkunum, fær sér sígó og bjór og býr til kosningaloforða lista."
Sverrir Jakobsson segir m.a.: "Stefnumál Besta flokksins eru þess eðlis að um þau er erfitt að fjalla með gagnrýnu hugarfari þar sem þau eru frekar þokukennd og þar að auki meira eða minna sett fram í hálfkæringi."
Ég er í aðalatriðum sammála þeim báðum. Einmitt þess vegna skiptir miklu máli að reyna að átta sig á fólkinu sem býður sig fram fyrir BF og sjónarmiðum þess. Hvað munu þau gera eftir kosningar, hverju má búast við af þessu fólki? Ef svo fer sem horfir geta þau verið í lykilstöðu um það hverjir fara með stjórn Borgarinnar á næsta kjörtímabili. Verður það óreiðuflokkurinn sem hefur stjórnað síðasta kjörtímabil, REI flokkurinn, Geysir Green flokkurinn, flokkur Árna Sigfússonar, flokkurinn sem setti allt á hausinn hér, flokkurinn sem fékk 50 millj. "daginn" áður en hlutur Rvk í Hitaveitu Suðurnesja var seldur til Geysir Green? Verður það Hanna Birna uppeldisdóttir Kjartans Gunnarssonar frá Valhöll eða verða það félagshyggjuflokkar?
Ég þekki ekki mikið til frambjóðenda BF nema hvað frænka mín og persónugervingur Sylvíu er þar. Ég veit að Jón Gnarr er yfirlýstur stuðningsmaður Guðlaugs Þórs amk frá því fyrir alþingiskosningar 2007 og að hann styður líka Gísla Martein. Talsmaður BF í skipulagsmálum er eftir því sem ég fæ best séð alveg í fararbroddi 2007 sjónarmiða í skipulagsmálum. Þar með er minn fróðleikur um pólitík þessa fólks upptalinn og á blað settur. Það læðist meira og meira að mér sá grunur að gagnrýnin og grínið beinist í æ ríkara mæli að okkur kjósendum.
Niðurstaða mín er að líklega muni BF helst vilja starfa með xD eftir kosningar. Það er afgerandi fyrir mig og mitt atkvæði.
Sjá einnig: Ármann Jakobsson
PS: Nú skýrir Pressan fráþví að Gaukur Úlfarsson fylgi og filmi Jón Gnarr nánast allan sólarhringinn. Skyldu þeir vera búnir að skrifa endann á BF-gjörningnum?
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.