Sæll kæri vinur.
Ég var farinn að sakana póstsendinganna þinna verulega þegar ég fékk upplýsingarnar um eiturlyfjabarónana í Mexico. Svona hlutir eru auðvitað ekki nýir fyrir okkur því hér áttum við og eigum svona kalla í bunkum. Þeir voru kannske ekki beint í eiturlyfjum eftir því sem við vitum en hér dynur hvert málið af öðru yfir okkur og aldrei að vita hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Alla vega virðast þessir mexíkönsku hafa svipuð áhugamál og okkar alíslensku útrásarapar, að safna allskonar drasli sem þeir geta ekki notað bæði af því þeir komast ekki yfir að nota það og líka hitt að gullbyssur eru áreiðanlega dálítið varasamar, en væntanlega að mestu til að yfirspila keppinautinn. Gamla góða pissukeppnin sem venjulegir strákar vaxa uppúr fyrir 10 ára aldur.
Síðustu málin sem hér tröllríða öllu eru afrek nafna þíns í Keflavík og skoðanakannanir.
Það er í raun alveg magnað að Árna skyldi takast að koma þessu Geysir Green Energy hugðarefni Jóns Ásgeirs, Hannesar Smára og Bjarna Ármanns í framkvæmd eftir allt sem á undan er gengið. Og Magma Energy er ekki í vafa um hvers virði orkan okkar er. Daginn eftir að samningar voru undirritaðir (með þegjandi samþykki Kötu Júl skilst manni) lýsa þeir yfir hækkun orkuverðs og áhuga á að hefja rannsóknir (tilraunaboranir) á svæðinu frá Flúðum og upp í Kerlingafjöll. Það síðara hefur reyndar verið í undirbúningi lengur en farið hljótt. Ég hef ekkert á móti því að menn hækki verð til erlendrar stóriðju en mér finnst verra að peningarnir verða notaðir til að byggja orkuver í eigu einkaaðila og að allur ágóði verður fluttur úr landi. Sú var tíðin að íslensk orkufyrirtæki kunnu að reikna og áttu allt sitt meira og minna á hreinu en það er eins og allir reiknihausar hafi verið hirtir frá þeim um leið og einkavinavæðingin hófst fyrir alvöru hjá okkur.
Hitt stórmálið í dag er að kjósendur virðast í alvöru ætla að veita stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum ráðningu gegnum borgarstjórnarkosningarnar í Rvk. Satt að segja sýnist mér allt benda til þess að Jón Gnarr og co muni verða sterkasta aflið í borgarstjórn eftir kosningar. Ég hélt efir síðustu skoðanakönnun, þar sem þeir fengu 4 fulltrúa, að etv myndu renna tvær grímur á kjósendur og menn færu meira að skoða hefðbundnar stefnuskrár. En því fer fjarri því samkvæmt könnun sem birt var í gær fær Besti flokkurinn 6 borgarfulltrúa. Þetta er reyndar alveg í samræmi við það sem maður heyrir á götunni. Og hér kemur enn og aftur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn fær sín 30% hvað sem yfir dynur.
Það er með ólíkindum hvað hefur gegnið á hjá okkur síðustu 18-20 mánuðina eða svo. Meira að segja eldgos! Það ætti reyndar að vera stærsta fréttin alltaf vegna þess hve illa öskufallið er að fara með bændur og búalið á gjörvöllu suður- og suðausturlandi. Og það á eftir að versna. En jafnvel það kemst ekki að vegna annarra hluta sem yfir okkur dynja.
Ertu nokkuð hættur við að koma heim í júní?
Kv. Gauti
PS: Góðvinur Óla vinar okkar gifti sig á laugardaginn og Óli hélt ræðu. Þar komst hann víst svo að orði að þetta hjónaband ætti framtíð fyrir sér þar sem báðir aðilar elskuðu sama manninn.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.