Binni útskrifaðist sem stúdent frá MR í gær. Ég var fyrsti MR-stúdentinn í minni fjölskyldu svo best ég veit. Binni er sá fjórði á eftir mér, pabba sínum og Sigrúnu Elfu systur sinni.
Til hamingju með það Binni minn.
Ég er svo heppinn að hann kemur stundum hingað í Dofra til að skipta um umhverfi í próflestrinum sínum. Það gerði hann einmitt í vor sérstaklega á meðan hann las fyrir stærðfræði- og eðlisfræðiprófin. Reyndar kom hann ekki einn því að hann á marga vini og nokkrir þeirra komu með honum til að lesa saman og reikna dæmi. Binni hefur mörg áhugamál og hefur verið mjög virkur í félagslífinu í skólanum. Hann var t.d. forseti Listafélagsins, spilaði í tveimur hljómsveitum, gaf út tvær plötur, tók þátt í Morfís og MR-Verzló keppninni o.m.fl. allt á síðasta árinu. Það er ekki sjálfgefið að menn eigi marga vini þótt þeir séu virkir í félagslífi en það er einmitt eitt af persónueinkennum Binna hvað hann á marga og góða vini.
Ég er reyndar einn þeirra sem þykist geta talið mig til vina Binna og sem vinur hef ég fengið að njóta þeirra persónutöfra sem hann býr yfir. Ekki síst eru það einlægni og hreinskilni sem eru þar áberandi. Ekki slæmir eiginleikar það.
Og sem afi hef ég getað fylgst með þroskaferli drengsins frá því að vera prakkarapolli gegnum slöttungsleg unglingsár og til þess að vera þroskað ungmenni. Hluta ef þessari sögu hef ég skrásett á stofudyrastafinn í Dofra. Binni var sem sé 178 cm á hæð þegar hann var 12 ára en 192 cm þegar hann útskrifaðist 19 ára gamall. Mestan límkamlegan þroska tók hann út árið 2005 (5 cm) en mestan andlegan þroska á síðustu tveimur árum.
Gangi þér allt í haginn kæri vinur.
Myndbandið hér fyrir neðan er tekið á undanúrslitakeppni músiktilrauna 2007 í Loftkastalanum. Hljómsveitin er <3 Svanhvít og Binni er drengurinn í bláu skyrtunni sem zoomað er á í upphafi. Þau urðu í öðru sæti í úrslitakeppninni í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu síðar um vorið.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.