Þegar Besti (flokkurinn) kom fram stefndi nokkuð fljótt í það að fjórflokkurinn í Rvík yrði látinn gjalda fyrir þá tortryggni og reiði sem ríkir í þjóðfélaginu. En nýliðið kjörtímabil var algjör farsi í boði Sjálfstæðisflokksins í Rvík. Á framboðslista flokksins voru líka fleiri einstaklingar sem höfðu þegið óútskýrða styrki og /eða mútur í meira mæli en hjá öðrum flokkum og þrátt fyrir friðarhjal heimasætunnar úr Valhöll er það í meira lagi órökrétt að flokkurinn tapi hlutfallslega minna fylgi en hinir gömlu flokkarnir. Skýringanna verður að leita víðar en í Besta og þær eru ekki endilega þær sömu fyrir alla flokkana.
Eftir Hrunið 2008, kosningarnar 2009 og Rannsóknarskýrsluna 2010 hafa talsmenn gömlu flokkanna í það endalausa talað um að "líta í eigin barm, axla ábyrgð, naflaskoðun, að vera ekki undanskilinn" o.m.fl. Þetta er líka orðræðan sem Dagur B notar núna án þess þó að nefna eitt einasta atriði sem gefur til kynna að hann meini eitthvað með þessu rausi. Þvert á móti telur hann að hann beri ekki persónulega ábyrgð og að allt þetta snakk eigi alls ekki við hann. Það eru alltaf einhverjir aðrir (nema í tilfelli Steinunnar Valdísar).
Dagur var mjög efnilegur þegar hann kom fram á sjónarsviðið í pólitík, ferskur og flottur. En hann hefur ekki náð að verða meira en efnilegur og "ferskur og flottur" hefur tilhneigingu til að rjátlast af mönnum. Honum tókst t.d. ekki að setja mark sitt á nýliðna kosningabaráttu og draga fram sérstöðu Samfylkingarinnar né heldur að afhjúpa uppákomur Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu. Að mínu mati er það líka út í hött að þiggja meira en 5 m í styrki til að heyja prófkjör.
Dagur B á að draga sig í hlé. Talsmaður flokks sem tapar meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn við núverandi aðstæður er ekki að skila því sem ætlast er til af honum. Það er ágætis mannval á lista Samfylkingarinnar og þar eru bæði reynsluboltar og ferskir nýliðar. Það er því ekkert að óttast.
Grafið hér fyrir ofan sýnir hlutfallslegt tap gömlu flokkanna miðað við síðustu sveitarstjórnarkosningar í Rvík. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að nota tölur úr síðustu Alþingiskosningum til að koma best út.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.