Þegar Besti (flokkurinn) kom fram stefndi nokkuð fljótt í það að fjórflokkurinn í Rvík yrði látinn gjalda fyrir þá tortryggni og reiði sem ríkir í þjóðfélaginu. En nýliðið kjörtímabil var algjör farsi í boði Sjálfstæðisflokksins í Rvík. Á framboðslista flokksins voru líka fleiri einstaklingar sem höfðu þegið óútskýrða styrki og /eða mútur í meira mæli en hjá öðrum flokkum og þrátt fyrir friðarhjal heimasætunnar úr Valhöll er það í meira lagi órökrétt að flokkurinn tapi hlutfallslega minna fylgi en hinir gömlu flokkarnir. Skýringanna verður að leita víðar en í Besta og þær eru ekki endilega þær sömu fyrir alla flokkana.
Eftir Hrunið 2008, kosningarnar 2009 og Rannsóknarskýrsluna 2010 hafa talsmenn gömlu flokkanna í það endalausa talað um að "líta í eigin barm, axla ábyrgð, naflaskoðun, að vera ekki undanskilinn" o.m.fl. Þetta er líka orðræðan sem Dagur B notar núna án þess þó að nefna eitt einasta atriði sem gefur til kynna að hann meini eitthvað með þessu rausi. Þvert á móti telur hann að hann beri ekki persónulega ábyrgð og að allt þetta snakk eigi alls ekki við hann. Það eru alltaf einhverjir aðrir (nema í tilfelli Steinunnar Valdísar).
Dagur var mjög efnilegur þegar hann kom fram á sjónarsviðið í pólitík, ferskur og flottur. En hann hefur ekki náð að verða meira en efnilegur og "ferskur og flottur" hefur tilhneigingu til að rjátlast af mönnum. Honum tókst t.d. ekki að setja mark sitt á nýliðna kosningabaráttu og draga fram sérstöðu Samfylkingarinnar né heldur að afhjúpa uppákomur Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu. Að mínu mati er það líka út í hött að þiggja meira en 5 m í styrki til að heyja prófkjör.
Dagur B á að draga sig í hlé. Talsmaður flokks sem tapar meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn við núverandi aðstæður er ekki að skila því sem ætlast er til af honum. Það er ágætis mannval á lista Samfylkingarinnar og þar eru bæði reynsluboltar og ferskir nýliðar. Það er því ekkert að óttast.
Grafið hér fyrir ofan sýnir hlutfallslegt tap gömlu flokkanna miðað við síðustu sveitarstjórnarkosningar í Rvík. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að nota tölur úr síðustu Alþingiskosningum til að koma best út.
Binni útskrifaðist sem stúdent frá MR í gær. Ég var fyrsti MR-stúdentinn í minni fjölskyldu svo best ég veit. Binni er sá fjórði á eftir mér, pabba sínum og Sigrúnu Elfu systur sinni.
Til hamingju með það Binni minn.
Ég er svo heppinn að hann kemur stundum hingað í Dofra til að skipta um umhverfi í próflestrinum sínum. Það gerði hann einmitt í vor sérstaklega á meðan hann las fyrir stærðfræði- og eðlisfræðiprófin. Reyndar kom hann ekki einn því að hann á marga vini og nokkrir þeirra komu með honum til að lesa saman og reikna dæmi. Binni hefur mörg áhugamál og hefur verið mjög virkur í félagslífinu í skólanum. Hann var t.d. forseti Listafélagsins, spilaði í tveimur hljómsveitum, gaf út tvær plötur, tók þátt í Morfís og MR-Verzló keppninni o.m.fl. allt á síðasta árinu. Það er ekki sjálfgefið að menn eigi marga vini þótt þeir séu virkir í félagslífi en það er einmitt eitt af persónueinkennum Binna hvað hann á marga og góða vini.
Ég er reyndar einn þeirra sem þykist geta talið mig til vina Binna og sem vinur hef ég fengið að njóta þeirra persónutöfra sem hann býr yfir. Ekki síst eru það einlægni og hreinskilni sem eru þar áberandi. Ekki slæmir eiginleikar það.
Og sem afi hef ég getað fylgst með þroskaferli drengsins frá því að vera prakkarapolli gegnum slöttungsleg unglingsár og til þess að vera þroskað ungmenni. Hluta ef þessari sögu hef ég skrásett á stofudyrastafinn í Dofra. Binni var sem sé 178 cm á hæð þegar hann var 12 ára en 192 cm þegar hann útskrifaðist 19 ára gamall. Mestan límkamlegan þroska tók hann út árið 2005 (5 cm) en mestan andlegan þroska á síðustu tveimur árum.
Gangi þér allt í haginn kæri vinur.
Myndbandið hér fyrir neðan er tekið á undanúrslitakeppni músiktilrauna 2007 í Loftkastalanum. Hljómsveitin er <3 Svanhvít og Binni er drengurinn í bláu skyrtunni sem zoomað er á í upphafi. Þau urðu í öðru sæti í úrslitakeppninni í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu síðar um vorið.
Nú þegar öll umræða ætti að snúast um eldgos og afleiðingar þess fyrir einstaklinga og þjóð kemst fátt að nema umræðan um sukk og spillingu, um stórfelld afbrot, ákærur og glæpi. Jafnvel sveitarstjórnarkosningar ná ekki í gegn góðri viku fyrir kosningar. Sennilega myndi engin eftir þeim ef ekki væri fyrir Besta flokkinn (BF).
BF slær í gegn
Fyrir rúmum tveimur vikum olli skoðanakönnun nokkru fjaðrafoki en þar kom fram að BF yrði næststærsti flokkurinn í borgarstjórn með 4 fulltrúa. Ég og margir aðrir héldu að þetta myndi verða til þess að menn hugsuðu sig um og kæmust að þeirri niðurstöðu að nú væri of langt gengið í gríninu. Í fyrradag var birt skoðanakönnun sem gerð var 10 dögum eftir þá fyrri. Þá hafði BF bætt 52,6% (12,3 prósentustig) við fylgi sitt og fengi 6 fulltrúa ef þetta yrðu úrslit kosninga. Frá byrjun apríl hafa allir flokkar tapað fylgi til BF; xD 13% (4 prstig), xS 44% (8 prstig) og xV 30% (3 prstig). Samkvæmt könnun frá 1. mars hefði Jón Gnarr ekki komist í borgarstjórn.
Nánast allir eru steinhissa á þessari þróun og pólitíkusar eru gjörsamlega hvumsa og hafa enga hugmynd um hvernig er hægt að bregðast við þessu. Í raun er líka lítið hægt að bregðast við þessu því fylgi BF byggist ekki á gagnrýni á stefnuskrá einstakra flokka eða framgöngu einstakra frambjóðenda. Gagnrýnin virðist beinast að stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum, - almennt og öllum.
BF og Sylvía Nótt
Fyrir nokkrum árum seti hópur manna í svið gjörninginn um Sylvíu Nótt. Í marga mánuði setti leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir í gervi Sylvíu Nætur mark sitt á íslenskt þjóðlíf þannig að um munaði. Sylvía og Gaukur Úlfarsson (sem er höfundur gjörningsins ásamt Ágústu Evu) voru með sjónavarpsþátt síðari hluta árs 2005 en hápúnktinum var náð þegar Sylvía vann Eurovision keppnina á Íslandi og fór sem fulltrúi Íslands til Aþenu ásamt fríðu föruneyti árið 2006. Þau Sylvía voru raun langt á undan sinni samtíð og tóku fyrir hið upphafna "Séð og heyrt" samfélag sem grasseraði á þessum útrásarárum sem aldrei fyrr. Á Wikipediu segir m.a.; "Silvía's personality is highly affected by narcissism and she sees herself as the most famous and talented person walking on the planet Earth." Ég hélt lengi vel að þetta hefði að meira eða minna leyti farið úr böndunum í sjálfri Eurovision keppninni. Í ljósi þess sem átti eftir að gerast og við vitum núna þá gat gjörningurinn ekki endað öðruvísi en hann gerði.
Þegar Sylvía Nótt var orðin fulltrúi Íslands á erlendum vettvangi varð mörgum sem höfðu haft gaman að uppátækinu nóg um. Ekki síst eftir að hún og hennar fólk gerði í því að ganga fram af öllu og öllum. Eitt er að gera grín og afhjúpa það augljósa annað að vera fulltrúi Ísendinga og viðkvæmra íslenskra atvinnuvega erlendis.
Hvernig endar BF-gjörningurinn?
Teitur Atlason segir m.a.: "Snilldin við Besta flokkinn er að hann afhjúpar fáránleika kosningaloforðanna. Það er bara EINHVERJU lofað fyrir kosningar. Það setjast saman á rökstóla, eitthvað fólk úr flokkunum, fær sér sígó og bjór og býr til kosningaloforða lista."
Sverrir Jakobsson segir m.a.: "Stefnumál Besta flokksins eru þess eðlis að um þau er erfitt að fjalla með gagnrýnu hugarfari þar sem þau eru frekar þokukennd og þar að auki meira eða minna sett fram í hálfkæringi."
Ég er í aðalatriðum sammála þeim báðum. Einmitt þess vegna skiptir miklu máli að reyna að átta sig á fólkinu sem býður sig fram fyrir BF og sjónarmiðum þess. Hvað munu þau gera eftir kosningar, hverju má búast við af þessu fólki? Ef svo fer sem horfir geta þau verið í lykilstöðu um það hverjir fara með stjórn Borgarinnar á næsta kjörtímabili. Verður það óreiðuflokkurinn sem hefur stjórnað síðasta kjörtímabil, REI flokkurinn, Geysir Green flokkurinn, flokkur Árna Sigfússonar, flokkurinn sem setti allt á hausinn hér, flokkurinn sem fékk 50 millj. "daginn" áður en hlutur Rvk í Hitaveitu Suðurnesja var seldur til Geysir Green? Verður það Hanna Birna uppeldisdóttir Kjartans Gunnarssonar frá Valhöll eða verða það félagshyggjuflokkar?
Ég þekki ekki mikið til frambjóðenda BF nema hvað frænka mín og persónugervingur Sylvíu er þar. Ég veit að Jón Gnarr er yfirlýstur stuðningsmaður Guðlaugs Þórs amk frá því fyrir alþingiskosningar 2007 og að hann styður líka Gísla Martein. Talsmaður BF í skipulagsmálum er eftir því sem ég fæ best séð alveg í fararbroddi 2007 sjónarmiða í skipulagsmálum. Þar með er minn fróðleikur um pólitík þessa fólks upptalinn og á blað settur. Það læðist meira og meira að mér sá grunur að gagnrýnin og grínið beinist í æ ríkara mæli að okkur kjósendum.
Niðurstaða mín er að líklega muni BF helst vilja starfa með xD eftir kosningar. Það er afgerandi fyrir mig og mitt atkvæði.
PS: Nú skýrir Pressan fráþví að Gaukur Úlfarsson fylgi og filmi Jón Gnarr nánast allan sólarhringinn. Skyldu þeir vera búnir að skrifa endann á BF-gjörningnum?
Ég var farinn að sakana póstsendinganna þinna verulega þegar ég fékk upplýsingarnar um eiturlyfjabarónana í Mexico. Svona hlutir eru auðvitað ekki nýir fyrir okkur því hér áttum við og eigum svona kalla í bunkum. Þeir voru kannske ekki beint í eiturlyfjum eftir því sem við vitum en hér dynur hvert málið af öðru yfir okkur og aldrei að vita hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Alla vega virðast þessir mexíkönsku hafa svipuð áhugamál og okkar alíslensku útrásarapar, að safna allskonar drasli sem þeir geta ekki notað bæði af því þeir komast ekki yfir að nota það og líka hitt að gullbyssur eru áreiðanlega dálítið varasamar, en væntanlega að mestu til að yfirspila keppinautinn. Gamla góða pissukeppnin sem venjulegir strákar vaxa uppúr fyrir 10 ára aldur.
Síðustu málin sem hér tröllríða öllu eru afrek nafna þíns í Keflavík og skoðanakannanir.
Það er í raun alveg magnað að Árna skyldi takast að koma þessu Geysir Green Energy hugðarefni Jóns Ásgeirs, Hannesar Smára og Bjarna Ármanns í framkvæmd eftir allt sem á undan er gengið. Og Magma Energy er ekki í vafa um hvers virði orkan okkar er. Daginn eftir að samningar voru undirritaðir (með þegjandi samþykki Kötu Júl skilst manni) lýsa þeir yfir hækkun orkuverðs og áhuga á að hefja rannsóknir (tilraunaboranir) á svæðinu frá Flúðum og upp í Kerlingafjöll. Það síðara hefur reyndar verið í undirbúningi lengur en farið hljótt. Ég hef ekkert á móti því að menn hækki verð til erlendrar stóriðju en mér finnst verra að peningarnir verða notaðir til að byggja orkuver í eigu einkaaðila og að allur ágóði verður fluttur úr landi. Sú var tíðin að íslensk orkufyrirtæki kunnu að reikna og áttu allt sitt meira og minna á hreinu en það er eins og allir reiknihausar hafi verið hirtir frá þeim um leið og einkavinavæðingin hófst fyrir alvöru hjá okkur.
Hitt stórmálið í dag er að kjósendur virðast í alvöru ætla að veita stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum ráðningu gegnum borgarstjórnarkosningarnar í Rvk. Satt að segja sýnist mér allt benda til þess að Jón Gnarr og co muni verða sterkasta aflið í borgarstjórn eftir kosningar. Ég hélt efir síðustu skoðanakönnun, þar sem þeir fengu 4 fulltrúa, að etv myndu renna tvær grímur á kjósendur og menn færu meira að skoða hefðbundnar stefnuskrár. En því fer fjarri því samkvæmt könnun sem birt var í gær fær Besti flokkurinn 6 borgarfulltrúa. Þetta er reyndar alveg í samræmi við það sem maður heyrir á götunni. Og hér kemur enn og aftur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn fær sín 30% hvað sem yfir dynur.
Það er með ólíkindum hvað hefur gegnið á hjá okkur síðustu 18-20 mánuðina eða svo. Meira að segja eldgos! Það ætti reyndar að vera stærsta fréttin alltaf vegna þess hve illa öskufallið er að fara með bændur og búalið á gjörvöllu suður- og suðausturlandi. Og það á eftir að versna. En jafnvel það kemst ekki að vegna annarra hluta sem yfir okkur dynja.
Ertu nokkuð hættur við að koma heim í júní?
Kv. Gauti
PS: Góðvinur Óla vinar okkar gifti sig á laugardaginn og Óli hélt ræðu. Þar komst hann víst svo að orði að þetta hjónaband ætti framtíð fyrir sér þar sem báðir aðilar elskuðu sama manninn.
Ég veit ekki hvað þetta er með Bandaríkjamenn. Af hverju eru þeir svona rosalega ofbeldisfullir og paranoid? Þegar þeir skipta um forseta þurfa þeir margar herdeildir af leyniþjónustu-, lögreglu- og hermönnum. Heilu borgarhlutunum er lokað af og stressið slíkt að sjónvarpstækið titrar. Sama á við ef forsetinn vill fara í bíltúr. Bílaröð, mótorhjól og þyrlur þjóta um lokaðar götur og lofthelgi á mörghundruð kílómetra hraða. Ef hægt er að tala um keisara þá er það í BNA.
Mér dettur þetta í hug þegar ég horfi á stjórnarskipti í Englandi. Þetta er svo ótrúlega afslappað og eðlilegt hjá þeim. Brown flytur ræðustúf úti á götu og svo gengur fjölskyldan burt af svæðinu og kemur ekki til baka. Það voru engir stórstælar á "the motorcade" þrír bílar og nokkur mótorhjól með blikkandi ljósum og amk á einum stað keyrðu þeir í öfuga átt eftir einstefnuakstursgötu. Þótt ég geri ráð fyrir að allir gluggar í aðliggjandi húsum hafi verið mannaðir leyniskyttum þá sá maður varla lögregluþjón og engar byssur en einn eða tveir klunnalegir kallar með fráhneppta jakka. Blaðamenn og aðrir áhorfendur voru í um 5 m fjarlægð.
Öfugt við það sem er í BNA þar sem menn halda dauðahaldi í stjórnarskrá sem skrifuð var fyrir meira en 200 árum og tók mið af byssueign og frelsisbaráttu sem enn var í fullum gangi, þá er ekki til skrifuð stjórnarskrá í Englandi. Allt gengur eftir hefðum. Forsætisráðherrann gengur inn um "The king's door" í Buckingham hittir drottninguna og segir af sér. Eftir það er enginn forsætisráðherra í Englandi þar til annar er útnefndur af drottningunni.
Þegar Brown keyrði burt hafði hann engin mótorhjól engin blikkandi ljós og þurfti að bíða á götuljósum eins og hver annar. Cameron kom keyrandi í einkabílnum sínum með einum fylgdarbíl. Þegar hann fór, eftir að hafa tekið að sér að mynda stjórn í "Kissing hands" seremóníu, voru fylgdarbílarnir orðnir tveir en að öðru leyti engar tilfæringar. Hann fylgdi umferðinni, bílar fóru framúr honum, fólk á leið heim á reiðhjólum og mótorhjólum fór framúr beggja megin bílsins og þar sem hann stansaði við ljós þá gekk fólk að bílnum, kíkti inn og tók myndir.
Um helgina geysist Guðlaugur Þór fram á sviðið í Mogga og Fréttablaði til að verja 25 millj kr prófkjörsstyrki. Guðlaugur er einn þeirra stjórnmálamanna sem valda mér því sem ég kalla grautarheilkenni. Þetta lýsir sér þannig að um leið og hann opnar munninn og út úr honum byrjar að streyma orðaflaumur þá verður allt að graut í litla grautarhausnum mínum. Ég fæ heiftarleg grautarheilkenni. Sama á við þegar ég les texta eftir manninn.
Ég las greinina í Fréttablaðinu og það var eins og við manninn mælt. Ég las ekkert nema mótsagnir, fásagnir, margsagnir og hinar og þessar ósamstæðar og bjánalegar fullyrðingar, réttlætingar og útskýringar sem eru bara leðja og standast enga skoðun. Svona virka grautarheilkennin. Lítum á dæmi:
Sp: Af hverju stóðu svona stórkostlegir styrkir þér til boða og af hverju þáðirðu þá?
GÞÞ: Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að menn séu með ákveðnar staðreyndir á hreinu. Það hefur verið mjög misjafnt hvernig hefur verið staðið að þessum prófkjörum. Það er fullkomlega ómögulegt að bera saman til dæmis þessi litlu prófkjör sem rétt yfir þúsund manns taka þátt í eða prófkjörin sem voru hér í Reykjavík sem voru stærstu prófkjörin. Síðan voru menn ekki bókhalds- eða framtalsskyldir... (bla bla bla) ...og það er ekkert hægt að fullyrða um hver hafi verið með mestu styrkina eða stærsta prófkjörið. Það bara vitum við ekki (svar við spurningunni?).
Sp: Ertu að segja að það séu einhverjir frambjóðendur sem hafi ekki skilað fullum upplýsingum um sín prófkjör til Ríkisendurskoðunar?
GÞÞ: Ég er ekki að segja það... bla bla bla (hvað varstu þá að segja?).
Sp: Á sama tíma og þú þáðir þessa styrki, og hafðir einnig milligöngu um að afla Sjálfstæðisflokknum tugmilljóna frá fjármálafyrirtækjum...
GÞÞ: Ég hafði ekki milligöngu um þetta ... Það sem ég gerði hins vegar, var að ég hvatti nokkra aðila sem síðan fóru í fjármálaráð Sjálfstæðisflokksins, að safna peningum... (hvað er milliganga?).
Í viðtalinu kemur fram að hann hafi ekki velt fyrir sér að segja af sér. Ekki einu sinni velt því fyrir sér og svo tekst honum einhvernvegin að blanda Illuga greyinu inn í þetta og gera grín að því að hann hafi fengið 17 millj í styrki en bara náð 5. sætinu og benda á að Obama hafi safnað miklu meiru. En bíddu við.
Obama safnaði um 650 millj dollara prófkjöri og forsetakosningum sem í heild stóð yfir meira en 2 ár með prófkjöri en GÞÞ safnaði 25 millj bara í hvelli. Bandaríkjamenn eru 1000 sinnum fleiri en Íslendingar. Ef miðað er við höfðatölu og gengi í dag þá jafngildir þetta að GÞÞ hafi safnað 200 millj dollara fyrir prófkjör sem stóð yfir í 2-4 vikur í Reykjavík þar sem hann hafði verið borgarfulltrúi, þingmaður og formaður OR. Geri Obama betur.
Það má líka líta öðruvísi á þetta. GÞÞ fékk 5100 atkv. í það sæti sem hann sóttist eftir í prófkjörinu. Það jafngildir því að hann hafi keypt hvert atkvæði á ca 5000 kr. Hvert einasta atkvæði. Hvað hefði maðurinn eiginlega fengið mörg atkvæði ef hann hefði ekki getað keypt þau? Til viðbótar því að vera styrkjakóngurinn þá var hann einn af vinsælustu bónus- og hvataferðalöngum sukkáranna.
Maður eins og ég sem fær grautarheilkenni þegar hann les texta eftir eða hlustar á GÞÞ kallar þetta siðferðis- og dómgreindarbrest á hæsta stigi.
Í raun er sekt eða sakleysi að lögum bara lítill hluti þess sem skiptir mál þegar ég reyni að meta hvort menn séu hæfir eða ekki. Ég ætlast til þess að réttarkerfið sjái um að dæma eða sýkna fólk að lögum og er því ekki allt of upptekinn af því. En mörg þeirra atriða sem ekki varða lög eru matskennd og lúta allt öðrum og erfiðari skilyrðum. Þarna koma t.d. til álita siðferði og dómgreind, athafnir og athafnaleysi, ásetningur og óvitaskapur en líka sönnunarbyrði og sönnunargeta.
Og svona lítur þetta út í mínum huga:
Dómgreind og siðferði er það sem skiptir langmestu máli. Það er útí hött og sýnir algjöran dómgreindar- og siðferðisskort að einstaklingur taki við meira en 25 millj. króna til að heyja prófkjörsbaráttu, jafnvel þótt það sé vegna tvennra kosninga. Það gildir alveg það sama um 15 millj. 10 millj. Ég get svosum ekki nefnt einhverja ákveðna hámarksupphæð en mér finnst 5 millj. vera allt of mikið fyrir eitt prófkjör.
Gerum okkur grein fyrir því að í prófkjörum eru menn að takast á innan flokka. Þeir sem mestu eyða eru jafnframt þeir sem allir þekkja. Það má reikna með að þeir sem eyða 10 millj. í prófkjörsslag leggi út sem nemur 5000-10.000 kr fyrir hvert atkvæði, allt eftir því hve miklu þeir eyða og hve mörg atkvæði þeir fá. Þetta er verðið sem þeir greiða fyrir hvert atkvæði. Það er augljóst að einstaklingur eða fyrirtæki sem hefur rétt frambjóðanda nokkrar milljónir til að kaupa atkvæði fyrir er í nokkuð góðri aðstöðu til að leita til hans með sín mál. Eða bara að hitta frambjóðandann og segja honum frá skoðun sinni á tilteknu máli. Alveg "án nokkurra skuldbindinga" að sjálfsögðu.
Og hvar gefst betra tækifæri til óformlegra skoðanaskipta "án nokkurra skuldbindinga" en í laxveiði eða á ferðalögum í einkaþotum. Og það er ekki verra ef viðkomandi frambjóðandi hefur verið svo elskulegur að þiggja boð um ævintýraferð til framandi staða sem hann hefði aldrei látið sér detta í hug að heimsækja ella. Svona ferðir eru hreinar gjafir og þær hafa áhrif enda segir máltækið: "Æ sér gjöf til gjalda."
Þetta er e.t.v. algengasta aðferðin sem notuð er á vesturlöndum til að hafa áhrif á afstöðu manna til fyrirtækja og málefna almennt en líka til að umbuna fyrir unnin og jafnvel óunnin verk. Svona eru mútur greiddar miklu fremur en að mönnum séu rétt peningabúnt fyrir tiltekna þjónustu.
Ég get ekki tekið undir með fólki sem finnst að allir sem hugsanlega geta talist meðsekir (guilty by association) um dómgreindar- og siðferðisskort eigi að hverfa af vettvangi stjórnmálanna. Eins og málum er háttað í íslenskum stjórnmálum og íslenskri stjórnsýslu tel ég t.d. að það gildi ekki það sama um alla ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hér ríkir ofurvald formanna stjórnmálaflokkanna og innan ríkisstjórnar ber hver ráðherra ábyrgð á sínum málaflokki og á helst ekki að skipta sér af eða tjá sig um málefni annarra ráðherra. Í þessu kerfi er ekki hægt að gera alla ráðherra samábyrga um einstök málefni. Ég get heldur ekki lagt að jöfnu ábyrgð þeirra sem eiga höfundarétt af því kerfi sem hér var komið á og hinna sem ekki tókst að vinda niður af ósköpunum eftir að kerfið var komið í strand.
Ég tel að þeir stjórnmálamenn sem hafa sýnt af sér verulegan dómgreindar- og siðferðisbrest miðað við ofangreint eigi ekki heima á Alþingi. Ég tel líka að þeir séu ekki gjaldgengir til opinberra starfa sem kjörið er til eða ráðið til í næstu 5 ári eða svo (sem er algengur ráðningartím forstöðumanna hjá ríkinu) og að auk þess séu þeir ekki gjaldgengir í tvennum Alþingiskosningum.
Það er mikilvægt að átta sig á því að í málum af þessu tagi snýst sönnunarbyrðin við. Þeir stjórnmálamenn sem hafa með hegðun sinni gefið tilefni til þess að vera sakaðir um siðferðis- og dómgreindarbrest þurfa sjálfir að sanna sakleysi sitt. Eðli málsins samkvæmt er oftast illmögulegt að færa fram lagasönnun á afbroti. Einstaklingi sem gegnir ábyrgðarstöðu fyrir samfélagið ber hins vegar að haga sér þannig að það sé yfir vafa hafið að hann þiggi ekki mútur fyrir að ganga erinda sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna.
Recent Comments