Flestir Íslendingar eru trúlausir. Þeir bara vita það ekki.
Þessi fullyrðing byggir aðeins á eigin reynslu og svörum annarra sem ég þekki við spurningum sem skipta máli um það hvort þeir séu í raun trúaðir. Almennt held ég að Íslendingar séu ekki trúaðir á meyfæðingu, upprisu, heilagan anda, göngu á vatni og önnur kraftaverk. Þeir trúa heldur ekki á persónulegan, alvitran og alltumlykjandi guð. En af því að við vitum ekki og getum ekki sannað hvernig heimurinn varð til er því haldið að okkur frá fyrstu tíð af öllum sem eru í kringum okkur að einhver kall sem lítur út eins og Helgi Hóseasson hafi skapað heiminn. Þetta væri allt í lagi ef einhver gæti sagt mér hver skapaði kallinn. Þeir sem ekki trúa þessu með kallinn mega þó eiga það að þeir halda áfram að leita og spyrja um upphaf heimsins en hinir bara sætta sig við Status Quo. Þó ekki allir. Prestur sem var samkennari minn á Hagskóla (Frank Halldórsson) útskýrði þetta allt þannig að fyrst þyrfti maður að trúa á guð og þá gæti maður trúað öllu hinu. Þetta er einmitt málið
En hvers vegna í ósköpunum er ég að pæla í þessu nú á föstudaginn langa? Jú, ég var í fermingarveislu í gær og þar las fermingarbarnið upphátt það sem stóð á kortunum og lét kortin ganga. Og bullið var yfirgengilegt, - fyrir minn smekk. Sjáið t.d. þetta:
Ungum er það allra best
að óttast Guð sinn herra.
þeim mun viskan veitast mest
og virðing aldrei þverra.
Hversvegna eiga allir að óttast þennan almáttuga og algóða herra? Þetta er endurtekið aftur og aftur í biblíunni og í útskýringum fyrir trúaða, t.d. hérna: Drottin Guð þinn skalt þú óttast og honum skalt þú þjóna…. og líka hérna: Drottinn hefir þóknun á þeim, er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.... (Sl 106.1; 136.25; 146.9-11). Og þetta bull um gaukinn sem er að þvo einhverjum 12 gaurum um fæturna eða grúppían sem þvær gauknum um fæturna og þurrkar með hárinu!!!
Og þetta er allt saman óháð því sem hefur verið að koma í ljós með hina karlremdu og kvenmannslausu kaþólsku kirkju.
Ég vissi ekki að ég var trúlaus fyrr en ég las bókina The God Delusion eftir Richard Dawkins. Þar fer hann lið fyrir lið yfir þau atriði sem ég hélt að væru undirstaða trúar minnar. Eftir lestur bókarinnar fattaði ég að ég var ekki trúaður og hafði aldrei verið trúaður. Mér hafði hinsvegar verið sagt að ég væri trúaður og var svo vel uppalinn og stilltur strákur að ég bara var trúaður. Nú þykir mér flest þetta trúarbull vera hlægilegt og stundum hræðilega asnalegt. Það á t.d. við um óttann sem kirkjan notar til að hafa áhrif. Ótti er skilvirkasta vopn sem til er til að berja menn til hlýðni. Notað í stjórnmálum í stórum stíl.
Gleðilega páska.
Welcome to the club!
Posted by: jgauti | mánudagur, 05 apríl 2010 at 18:56