Bóksalinn Åsne Seierstad stendur á fertugu en var 32ggja ára gömul þegar hún bjó í nokkra mánuði hjá bóksalanum í Kabul og fjölskyldu hans. Það er dálítið undarlegt að lesa lýsingu hennar á lífi einstaklinganna sem hún býr með því maður verður á engan hátt var við hana sjálfa í frásögninni. Hún er aldrei hluti af fjölskyldunni heldur sér hún fjölskylduna utan frá og kannske eilítið ofan frá. Að góðum blaðamannasið fjallar hún um efnið á hlutlægan hátt, eða svo gæti maður haldið. Auðvitað er það ekki þannig því hún tekur afstöðu með einstökum persónum og á móti öðrum. Hinn vestræni uppruni hennar leynir sér ekki heldur. Þetta er þó ekki það sem ég var að hugsa við lestur bókarinnar heldur var ég algjörlega upptekinn af þessu framandi umhverfi, sem hún lýsir svo vel, siðum og venjum þessa þjóðfélags, vandamálum þeirra, gleði og sorgum.
Hin vestræna túlkun Åsne kom bóksalanum líka spánskt norskt fyrir sjónir því eftir að bókin kom út í Evrópu á árunum 2002-2003 lagðist hann í ferðalög og gaf út bók til að mótmæla þeirri mynd sem hún dregur upp af honum og fjölskyldu hans. Örugglega hefur lýsing hennar komið honum á óvart en fleira getur komið til. Bóksalinn getur hafa lent í vandræðum með að útskýra sjónarmið Åsne fyrir öðrum körlum og hvað í andskotanum hann meini með því að taka konu sem ekki lætur að stjórn inn á heimili sitt og þar með inn í hin heilögu vé karla í Kabul. Enn kannske hefur bóksalinn bara séð viðskiptatækifæri í útkomu bókarinnar og kannske var það ástæðan til að hann tók Åsne inn á heimili sitt í upphafi. Og loksins getur verið að Åsne hafi farið offari að einhverju leyti.
Mitt í allri hysteríunni gagnvart múslimum getur verið gott að lesa "sannsögulegar" skáldsögur. Skáldsögur draga oft fram það sem fer framhjá manni í sundurlausum, vel völdum og vel ritstýrðum fréttum. Bókin A Thousand Splendid Suns gerði það svo sannarlega og það gerir Bóksalinn líka. Fyrri bókin horfir á þjóðfélagið innan frá eins og það birtist lifandi einstaklingi en sú síðari dregur fram þau einkenni þjóðfélagsins sem einkum ná athygli utanaðkomandi skrásetjara. Báðar bækurnar auka skilning hins venjulega lesanda svo um munar. Og það er margt sem ég veit meira um eftir lestur bókarinnar.
Ættar-, ættbálka- og karlaveldið er einn af mest áberandi þáttum frásagnarinnar. Þó þessir þættir séu algengir í þjóðfélögum víða um heim þá er það varla í ríkar mæli en í Afganistan. Þetta sínir m.a. saga landsins, ekki síst eftir 1919 en líka fyrr. Sumir tengja alla þessa þætti við islam sérstaklega en það er alrangt vegna þess að þeir eru allir eldri en islam. Miklu eldri. Það má frekar segja að islam hafi orðið til og að útbreiðsla islam hafi orði svo hröð vegna þessara þriggja þátta. Ættar- og ættbálkaveldið á sér margar hliðar. T.d. er talið æskilegast að stofna til hjónabanda innan fjölskyldunnar og hjónabönd eru algeng meðal systkinabarna en hér á vesturlöndum er slíkt bannað. Þetta styrkir ættarböndin, fjármunir (heimanmundur og kaupverð brúðar) haldast innan ættarinnar og ættin verður sterkari innan ættbálksins.
Karlaveldið er algert innan fjölskyldunnar. Þar ræður karlinn sem skaffar öllu sem hann vill, næstir koma öldungar sem ekki skaffa, svo bræður húsbóndans og loks synir húsbóndans í aldursröð. Hjá Bóksalanum búa átta konur (Åsne ekki meðtalin), móðir hans (amman), tvær eiginkonur, tvær systur og þrjár dætur. Amman er nánast ósjálfbjarga vegna offitu en er þó eina konan sem nýtur einhverrar virðingar útávið. Allir karlmenn á heimilinu eru hærra settir en allar konurnar nema amman. Tólfára gamlir strákapollar geta hundskammað hverja þeirra sem er og klagað í pabba sinn ef þær hlíða honum ekki.
Meðal kvennanna ræður eiginkonan mestu. Hún fer með fjárráðin og hún skipuleggur heimilishaldið og barnauppeldið. Allt verður þó heldur flóknara þegar eiginkonunum fjölgar. Bóksalinn tók sér nýja konu þegar honum fannst sú gamla ekki gagnast honum nægjanlega vel í bólinu. Nýja konan var enn á barnsaldri þegar hún kom á heimilið en bóksalinn sá ekkert nema hana og þau gengu venjulega snemma til leikja og síðan til svefns í svefnherbergi húsbóndans. Þetta gróf undan stöðu gömlu eiginkonunnar sem sat uppi með heimilisstjórnina en var rænd virðingunni sem fylgir því að sofa í rúmi húsbóndans. Lægsta stöðu hefur yngsta dóttir húsbóndans. Hún er nánast eins og þræll á heimilinu, eldar mat, ræstir húsið, þvær þvott og gengur í raun undir öllu hinu fjölskyldufólkinu.
Åsne segir einnig frá hjónabandsmiðlun og brúðkaupum í bók sinni, hvernig lítið atvik getur valdið því að þrír bræður drepa systur sína, hvernig Talibanar bönnuðu myndir af öllum lifandi verum allsstaðar og mörgu fleiru. Meðal annars segir hún frá því hvernig er að ganga í búrku, bæði kostum þess (já það eru til kostir) og göllum. Hvernig þekkir maður t.d. konu í búrku? Fyrir það fyrsta eru búrkurnar ekki allar alveg eins þó okkur sýnist það. Svo er það göngulag og fas en ekki síst þekkir maður konurnar í fjölskyldunni af skóm og skóhljóði. Enda bönnuðu Talibanar skó með hörðum hælum. Umhverfið og húsnæðið fær líka sinn skerf og er mjög fræðandi. Ekki hafði ég gert mér grein fyrir að til séu rússneskar blokkir í Kabul.
Í það heila fannst mér þetta aldeilis frábær lesning. Fróðleg, framandi, vel skrifuð og vel þýdd (Erna Árnadóttir) lesning.
Fjórar stjörnur af fjórum. ****
Recent Comments