Ég fór með Kollu í svæfingu í dag. Hún var svo sem ekki komin að fótum fram vegna elli þótt hún væri talsvert gigtveik. Fyrir rúmi ári síðan greindist hún með mikið mjaðmalos og hefur verið á lyfjum síðan. Þetta kom mér mjög á óvart og reyndar fannst mér hún vera svo slæm að sennilega væri best að svæfa hana frekar en að láta hana þjást og verða smám saman örkumla. Ég tók því ákvörðun um að fá mér annan hund bæði til að undirbúa viðskilnað Kollu og einnig til að njóta aðstoðar hennar við uppeldi á ungum hvolpi þann tíma sem hún ætti eftir.
Það var aldrei meiningin að vera með tvo hunda en lyfin höfðu meiri og betri áhrif á Kollu en ég hafði þorað að vona. Það var varla hægt að merkja að áhuginn og ákefðin hefðu minnkað en hraðinn og kjarkurinn var minni og hún var ósköp stirð og aum eftir boltaleiki og lengri gönguferðir. Og hún hefur sannarlega hjálpað til við uppeldið á Emmu sem kom á heimilið fyrir nákvæmlega ári síðan, 9. febrúar 2009.
En nú eru erfiðir tímar, minnkandi tekjur og hækkandi verðlag. Ég á engra kosta völ nema að minnka heimiliskostnaðinn. Rekstarkostnaður á heimili eins og mínu er ekki hár miðað við það sem gerist hjá fjölskyldufólki á fullum snúning. Það eru ekkert mjög margir póstar sem hægt er að skera niður. Ég borða einfaldan mat, eyði ekki miklu í föt eða ferðalög og ekki verð ég fátækur af ástundun leikhúsa eða skemmtistaða. En lyfin fyrir Kollu voru nokkuð dýr og hún var á dýru sérfóðri. Svona er nú það.
Ég treysti mér ekki alveg í eftirmælin núna. Þau koma næst.
Sæll Frændi
Já margur gerir sér ekki grein fyrir því hve sárt er að missa hundinn sinn, sem margir kalla besta vinin, en það hef ég þurf að ganga í gengnum líka og skil ég þig því vel þetta er svooo sárt. En tímin læknar öll sár og svo kemur sá tími sem maður hugsar til baka með bros á vör, því það er óendalegt hvað þessi dýr gefa manni mikið :))
En gangi þér sem allra best með nýju starfsemina þína, þið Emma og kisa munuð hafa nóg fyrir stafni það er ég viss um.
Kær Kveðja
Elsa Hlín frænka og Co
Posted by: Elsa Hlín | föstudagur, 19 febrúar 2010 at 16:43
Stakkars.
Það verður eitthvað tómlegara í Dofra, en þið eruð ennþá þrjú og getið vonandi fundið huggun hjá hvort öðru (þótt að ég efist um að Kisa gefi svo mikið af sér).
Kondolerer, Jón Gauti :þ(
Posted by: Account Deleted | miðvikudagur, 10 febrúar 2010 at 05:35