Nú hafa yfir 61 þús manns sett nafn sitt á lista In Defence hópsins (hverjir sem það nú eru) með áskorun til forsetans um að staðfesta ekki Icesave ábyrgðina en vorið 2004 mótmæltu hátt í 32 þús manns því að forsetinn staðfesti fjölmiðlalögin. Forsetinn þarf ekki frekar en hann vil að rökstyðja ákvörðun sína ítarlega en hinsvegar er það hans máti að blaðra út og suður um alla hluti. Það kann einmitt að vera að hann hafi að einhverju leyti bundið afstöðu sína með fyrri yfirlýsingum og geti ekki látið dagsformið eitt ráða úrslitum.
Það er margt skrýtið um þessi áramót. Ögmundur sagði þetta vel við atkvæðagreiðsluna um Icesave í fyrradag. Það er eins og við sjáum allt í spegli þar sem hægri verður vinstri og vinstri hægri. Flokkur sem lengst af hefur talið að stjórn landsins væri best komið í höndum fárra útvaldra og fyrirtækja þeirra og kennt sig við öryggi og ábyrgð heimtar nú þjóðaratkvæðagreiðslu og beitir sér af hörku fyrir áhættustjórnmálum. Auk þess er orðræðan öll miklu skarpari og stóryrtari en hún hefur verið. Magnús Geir Eyjólfsson er stjórnmálafræðingur og blaðamaður á Pressunni. Hann lýsir þessu í grein fyrir áramótin. Þar segi m.a:
„Lítið hefur borið á nýju þingmönnum stjórnarflokkanna, en nýliðar stjórnarandstöðunnar hafa ekki beint haldið virðingu Alþingis á lofti. Reynslan kennir mér að fólk sem getur ekki opnað á sér munninn án þess að öskra og svívirða náungann er ekki í jafnvægi. Þingmenn víla ekki fyrir sér að nota orð eins og „lygar“, „landráð“ og „þjóðníðingar“. Ofsóknaræðið er svo mikið að ætla mætti að þetta lið væri á meskalíni. Krúið í kringum formann Framsóknarflokksins er sérstaklega slæmt að þessu leyti. Þetta fólk er ekki í jafnvægi.“
Það sem er mest spennandi núna er hvað forsetinn hyggst gera. Ég held að hann ætli að staðfesta samninginn og sé að ganga frá rökstuðningi við þá ákvörðun. Rökstuðninginn getur hann líklega sótt beinustu leið í málflutning Davíðs og félaga gegn þjóðaratkvæðagreiðslu vegna fjölmiðlalaganna. Að vísu var það þannig að mitt í deilunum um þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki voru menn sammála um að það þyrfti að setja reglur um það hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla í færi fram svona tilvikum en ósammála um það hvernig þær reglur ættu að vera. Í þessum efnum er allt óbreytt. Það voru engar reglur settar og menn eru vafalaust enn ósammála um hvernig þær eiga að vera (sjá t.d. hér).
Í mínum huga skítur það skökku við að tala annarsvegar gegn samningnum á þinginu, líkja samþykkt hans við landráð og að þeirra sem samþykktu hann bíði ævarandi skömm en telja hinsvegar allt í lagi að láta þjóðin greiða atkvæði um hann beint. Ef þannig færi að þjóðin samþykkti samninginn hvað má þá segja um slíka þjóð. Er þjóðin í heild þá hluti af þessu landráðapakki sem ekkert bíður nema ævarandi skömm? Getur þjóð kannske verið „þjóðníðingur?“ Nema að það standi til að láta greiða atkvæði með handauppréttingu þannig að hægt sé að brennimerkja þá sem samþykkja.
Ég velti fyrir mér hvort stjórnskipun okkar sé á einhvern hátt of veik til að takast á við stór mál. Mér finnst jafnvel eins og við stöndum frammi fyrir kerfishruni sem ekki eru óþekkt fyrirbæri þegar miklir erfiðleikar steðja að þjóðfélögum. Í Róm til forna féll lýðræðisskipulagið m.a. vegna spillingarinnar sem ríkti þegar hægt var að kaupa öll helstu embætti ríkisins. Í Rússlandi réði Zarstjórnin ekki við ytri og innri vandamál sem steðjuðu að ríkinu og á Spáni, á Ítalíu, í Portúgal og í Þýskalandi komust fasistastjórnir til valda. Að einhverju leyti má einmitt sjá fasistískan málflutning í BNA og hér á okkar litla Íslandi núna.
Niðurstaða mín er sú að kerfið sé nokkuð öflugt, með smáhnökrum þó, og það séu fyrst og fremst stjórnmálamenn sem bregðast. T.d. viðurkennir stjórnarandstaðan að það sé engan vegin víst að við myndum vinna Iccesave málið fyrir dómstólum og að það myndi kosta okkur amk helmingi meira en samningurinn ef við töpuðum því. En stjórnarandstaðan virðist vera tilbúin til að taka þá áhættu og það er reyndar alveg í stíl við stjórnarhætti xD og xB allan síðasta áratug með aðkomu xS undir það síðasta.
Að mínu mati geta menn tekið þannig sénsa fyrir sig prívat og persónulega ef þeir vilja en ekki fyrir þjóðina alla.
Ég held að Ólafur karlinn verði að staðfesta þennan samning hreinlega vegna þess að svona samningur myndi ALDREI fara gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu alveg sama hversu góður hann væri --> þjóðaratkvæðagreiðslur virka hreinlega ekki fyrir svona óvinsæl mál.
Þetta er náttúrulega alveg ömurlegur samningur en ég held satt að segja að hann sé samt sem áður það besta sem er í boði.
Posted by: www.facebook.com/profile.php?id=555005930 | mánudagur, 04 janúar 2010 at 00:45