Ég hef oft velt því fyrir mér hvað fær fólk til að koma í sjónvarp og lýsa því hvað það sé ánægt með óhamingju annarra. Þar sem er dauðarefsing í BNA virðast margir fá einhversslags fullnægingu við að horfa á þegar glæpamenn eru sviftir lífi. Þetta á ekki bara við í BNA og ekki bara þegar dauðarefsingu er framfylgt. Í sjónvarpsfréttum í Englandi er það nánast daglegt brauð að fórnarlömb ýmissa afbrota og glæpa eru leidd fram fyrir myndavélarnar við lok réttarhalda til að tjá sig um sektardóma.
Dæmi 1: Óhamingju stúlka, sem átti að baki ömurlega æsku á óreglu- og ofbeldisheimili og leiddist sjálf út í eiturlyfjaneyslu og vændi, er myrt af vörubílsstjóra á afviknu bílastæði. Samkvæmt myndum var stúlkan illa á sig komin líkamlega með brostin augu og andlit sem ekki hafði brosað í mörg ár. Móðirin og sambýlismaður hennar nr. þrjú síðan hún skildi við föður stúlkunnar bæði útúr sukkuð og móðirin með brennivínsbjúg í andliti, þunnt hárið ógreitt og dökka bauga undir augunum og langt niður á kinnar. Þessi kona hafði áreiðanlega ekki notað snyrtivörur í áratugi og líklega ekki sápu. Sjónvarpið (Channel 4) lét sig hafa það að leiða blessaða konuna fram fyrir myndavél til að segja hve mikið hún saknaði elskunnar sinnar sem alla tíð hefði verið augasteinninn hennar og átti framtíðina fyrir sér. Og auðvitað leið henni betur með að morðinginn hafði náðst og var kominn bak við lás og slá
Dæmi 2: Ungur drengur í Texas er skotinn til bana af eilítið eldri strákum sem áttu leið hjá, að því er virðist bara í gamni. Skotmaðurinn er dæmdur til dauða, en það þarf að fresta aftökunni dálítinn tíma þangað til strákurinn hefur náð aftökualdri. Foreldrar drengsins mæta galvösk til athafnarinnar. Sjónvarpið stillir þeim upp að henni lokinni og þau segja frá því hversu glöð þau séu yfir aftökunni og að nú muni þeim líða betur og geti nú haldið áfram með lífið sitt. Svo er grenjað dálítið og vitnað í Guð.
Mér finnst þetta algjörlega óskiljanlegt. Hvað er fólk að rjúka með sínar einlægustu og mest prívat tilfinningar í sjónvarp? Og hvernig í ósköpunum skiptir það svona miklu máli fyrir vellíðan þeirra að einhver fái að gjalda? Ekki koma börnin til baka og ekki breytist framtíðin við það. Og hví í ósköpunum kemst sjónvarpið upp með að gera sér óhamingju manna að féþúfu á svona ósmekklegan hátt og algjörlega að óþörfu? Þetta virðist þykja svo sjálfsagt að það er stórfrétt ef maður lýsir því að hann hafi ekki áhuga á að horfa á kvalara sinn og margfaldan morðingja deyja. Þó hefur hann væntanlega fengi bosðdkort sem á hefur staðið:
Virðulegi LaRuffa.
Okkur er sönn ánægja að bjóða yður að vera viðstaddur aftöku JAM sem skaut yður sex skotum árið 2002. Eftir að JAM skaut yður myrti hann nokkra menn áður en hann náðist eftir æsilegan eltingaleik. Réttarhöldin tóku fremur stuttan tíma, þökk veri frábærri framistöðu saksóknara Texasríkis, en vegna mikilla anna á aftökudeildinni hefur sjálf athöfnin dregist.
Dagskrá
- 1700 Húsið opnað
- 1800 Gestir skrá sig og ganga til sætis
- 1830 JAM leiddur inn
- 1900 Aftakan fer fram (stundvíslega)
- Að lokinni athöfninni verður boðið uppá léttar veitingar í boði ríkisstjóra
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.