Þeir Coen bræður hafa mjög gaman af að leika sér með mismunandi karaktereinkenni fólks eftir uppruna þess og búsetu. Í úrvalsmyndinni Fargo eru þeir á slóðum Skandinava nyrst í BNA og gera stólpa grín af þessu frekar alvarlega og nononsense hugarfari þeirra, í Big Lebowski gera þeir grín af "easy does it" hugarfari útúrdópaðra hippa á vesturströndinni á dögum Víetnam stríðsins og í Barton Fink setja þeir frekar aumkunarverðann menningarnerd frá New York niður í sýndarveruleika kvikmyndanna í Hollywood.
Í þessari mynd eru þeir komnir til Texas og New Mexíkó. Texas er uþb átta sinnum stærra en Ísland og þess sér stað í myndatökunni. Þeir bræður nota mikið af tökum sem sýna fjarlægðir, gróðursnautt landslag, hita, svita og strjálbýli. Og eins og ávallt eru sviðsmyndirnar vandlega valdar. "Góðu gæjarnir " eru með cowboy hatta, vondu gæjarnir hattlausir með hálfsítt svart hár en allir eru í cowboy stigvélum. Og þau eru þröng og erfitt að komast úr þeim og í. Ekki þessar víðu stælingar sem við þekkjum. Við karaktersköpunina er eins og Sergio Leone svífi yfir vötnum. Það eru notaðar nærmyndir af svipbrigðalausum andlitum sem flest eru markeruð af endalausri sól og gnauðandi skrælþurrum vindi.
Aðalpersónan býr með barnslegri konu sinni í húsvagnasamfélagi. Konan er ekki feit, ekki drykksöm og ekki ljóshærð, en þetta eru helstu einkenni þeirra kvenna sem búa í húsvögnum ef marka má kvikmyndir almennt. Hann (Josh Brolin) er bara "venjulegur" gæi sem hefur ekki vinnu en veit sínu viti við veiðar í "eyðimörkinni." Hann kemur að glæpavettvangi þar sem eiturlyfjasmyglarar hafa drepið hvern annan þannig að bæði dóp og peningar eru í reiðileysi. Einn maður er helsærður en á lífi og biður um vatn sem okkar maður getur ekki veitt honum. Hann stingur á sig peningunum, fer heim, en getur ekki sofnað vegna náungans sem var á lífi og fer því á stað aftur með vatn. Þetta verður honum að falli.
Glæponinn hefur það hlutverka að elta okkar mann. Hann er aldeilis viðurstyggilegur sykkópat sem er helmigi hættulegri vegna þess hvað hann er klár. Hann er í engum vandræðum með að stela réttum lyfjum og græjum til að sauma sjálfan sig saman og hann reiknar af talsverðu innsæi út hvernig menn koma til með að hegða sér við hinar ýmsu aðstæður. En þeir Coenar geta ekki stillt sig um að gera þrýstiloftskút með slöngu og helbyssu að eftirlætis vopni hans. Þessar græjur eru svipaðar stóru handslökkvitæki og því ekki alveg ídeal til að drösla með sér.
Framvinda söguþráðarins er fremur hæg en örugg. Það er í samræmi við allt yfirbragð myndarinnar þar sem ekki eru eiginleigir hápunktar heldur jöfn og þétt spenna út í gegn. T.d. eru manndráp og eltingaleikir ekki endilega hápunktar heldur aðeins venjulegir atburðir í venjulegri sögu.
Í amerískum spennumyndum koma oft fyrir atvik sem innihalda loftræsistokka. Oftast er hvorki inn- né útblástur í þessum stokkum og venjulega eru þeir glansandi hreinir. Þeir eru bæði sverir og líka jafnsverir út í gegn, mannheldir og ná án nokkurra tálmana milli aðliggjandi herbergja eða hæða. Þeir sem hafa komið nálægt loftræsikerfum vita að þetta er ekki svona. Loftræsistokkar eru mjög oft einangraðir að innan, þeir mjókka með lengdinni, það er loftstreymi í þeim ásamt búnaði til að koma í veg fyrir hljóðbærni, til að stilla loftmagn inn í einstök herbergi og hindra sambruna. Þeir eru nánast alltaf skítugir að innan. Í þessar mynd er atriði með talsvert víðan loftstokk sem nær án hindrana frá einu hótelherbergi yfir snyrtingar í tveimur herbergjum og inn í næsta herbergi. Ég held að Coen bræður séu þarna að gera grín að loftstokkaatriðum. Ef ekki þá má draga eina stjörnu frá eikunnagjöfinni.
Eins og oftast er endir myndarinnar ekki hefðbundinn skilur mann eftir í talsverðu uppnámi.
Ég gef myndinni 3/4 stjörnum.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.