Kreppan hefur mikil og alvarleg áhrif á afkomu margra, mjög margra, en ekki þó nándar nærri allra. En afkoman er eitt og líðanin er annað og ég fullyrði að kreppan hefur jafnvel enn meiri áhrif á líðan manna en fjárhagslega afkomu.
Umræða um hrunið og kreppuna, um svik og svínarí umlykur allt og alla. Sjónvarpið, útvarpið, öll blöð og allt bloggið er undirlagt krepputali. Og umræðan er hrikalega neikvæð og niðurdrepandi. Í henni birtist geipileg reiði og tortryggni. Samfélagið er gegnum sýrt af vantrausti og uppreisnarhug. Verstir eru nokkrir stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu. Þeir víla ekki fyrir sér að afneita fyrri gjörðum og það sem meira er, að saka andstæðingana um einbeittan vilja til að vinna landi og þjóð mein, - að fremja landráð í stórum stíl. Þetta eru mennirnir sem í raun ættu að fara fyrir sínu fólki með málefnalegri og vandaðri umræðu.
Ég hef ekki farið varhluta af þessu ástandi. Í fyrsta skipti á ævinni tók ég þátt í útifundum helgi eftir helgi, mætti á mótmæla- og stjórnmálafundi hjá ýmsum aðilum og stóð á Austurvelli með búsáhaldamúsikköntum hvað eftir annað. Ég opnaði Moggablogg til að taka þátt í umræðunni og til að láta ekki skapið og neikvæðnina setja mark sitt á Dofrabloggið. Ég hef hlustað á alla fréttatíma og lesið öll blogg á netinu í allan vetur og í sumar sem leið. En nú er nóg komið.
Maður hlítur að geta ráðið tilfinningum sínum að einhverju leyti sjálfur. Og ég er hættur þessu. Ég hef fundið greinilega fyrir því hvernig öll þessi neikvæðni nagar mann að innan. Maður verður tortrygginn og argur og telur sig jafnvel vita allt best sjálfur. Ég hef ekki getað einbeitt mér að bókalestir, nema bækurnar fjalli um hrunið, og haft afar takmarkaðann áhuga á bíó, útiveru og tómstundaiðju almennt. Mér finnst sjálfum að ég sé leiðinlegri en áður og að léttleikinn sé að einhverju leyti horfinn. Þetta gengur ekki.
Ég er hættur á Moggabloggi, ég þarf ekkert að heyra alla fréttatíma á öllum stöðvum og ég þarf ekki að tjá mig um alla skapaða hluti á netinu nema ég hafi eitthvað jákvætt fram að færa. Eitt heilt ár er alveg nóg. Og árangurinn lætur ekki á sér standa. Ég hef gaman af að taka myndir, ég er kominn í ræktina og ég er að byrja á bók um heimspeki. Og mér þykir bara gaman að skrifa pistla eins og þesnnan á Dofrabloggið.
Mér áskotnaðist þessi mynd sem fylgir nýlega. Hún er líklega tekin á Hofteigi 1955. Þá var ég 14 ára og með þykkt hrokkið hár. Reyndar svo hrokkið að ég náði aldrei að greiða í píku jafnvel þó ég notaði vel af briliantíni. Þetta eru hlutirnir sem maður man alla ævi. En ég man ekki gjörla hvenær þetta breyttist nema hvað ég var kominn með "venjulegt" hár þegar ég varð stúdent. Veturinn 1955-56 var eitt lag spilað lang, lang mest. Sjá tengil hér fyrir neðan.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.