Okkur sárvantar auðvitað svona alvöru fólk. Það er ekki spurning. Er ekki bara rétt að við sækjum um að gerast nýlenda Danaveldis aftur? Eða kannske þegnar Noregskonungs? Við erum nú þegar komin með frábæran norskan (og óháðan) seðlabankastjóra og Eva Joly er greinilega mannseskja af þeirri tegund sem við þurfum verulega á að halda. Ekkert múður á þeim bæ.
Danir hafa auðvitað betri húmor en Norðmenn en á móti kemur að Norðmenn eru líkari okkur og þangað liggja allar ættir sem vert er að hafa orð á. En Danir eiga samt margt óuppgert við okkur og engin ástæða til að fara ekki í mál við þá. Fyrri kona Barna Jónasar langalangafa míns, hún Sesselja, var t.d. látin dúsa í Tugthúsinu (stjórnarráðinu) miklu lengur en efni og dómar stóðu til. Hún er strangt til tekið ekki formóðir mín af því að ég er komin af síðari konu Jónasar, en það má vel reyna málsókn vegna vinnutaps sem bitnaði auðvitað á Jónasi og þar með á síðari konu hans og langalangömmu minni og að lokum á mér. Það eru einmitt 200 ár síðan þessir hræðilegu atburðir áttu sér stað og mér reiknast til að með vöxtum og vaxtavöxtum hafi upphæðin milljónfaldast eða svo á þessum árum. Og svo kemur verðtrygging ofan á. Það er ekki spurning.
Að öllu meðtöldu þá legg ég þó til að við sækjum frekar um aðgang að Noregi. Endurvirkjum bara Gamla Sáttmála. Um leið myndum við að sjálfsögðu fara í mál við Norðmenn vegna þess að þeir stóðu ekki við sáttmálann og skulda okkur þar af leiðandi svo sem eins og átta olíusjóði og verða að taka okkur til baka líka. Þetta bara blasir við. Það er ekki spurning.
Það væri nú ekki ónýtt að geta lagt Norðmönnum til okkar eigin alíslenska Skallagrím sem talar norsku reiprennandi í staðinn fyrir norska Skallagríminn sem Norðmenn sendu okkur fyrir svo löngu síðan og sem gat af sér einhvern mesta terrorista gjörvallrar veraldarsögunnar. Hann Egil Skallagrímsson. Landamæraerjur nokkurra araba út af eyðimerkurlandi í Austurlöndum eru nú ekki stórmiklar miðað við land- og arfheimtuaðgerðir Egils hér á árum áður. Egill gerði það gott í Englandi líka og þess vegna urði Englar svo hræddir að þeir skelltu á okkur sérstökum terroristalögum þegar Davíð lét skína í tennurnar. Og þannig verður þetta þegar Skallagrímur jr. tekur Norðmenn til bæna vegna gamalla samningsrofa með InDefence lögfræðingana og nýja útrásarvíkinginn Sigmund Davíð sér við hlið. Norðmennirnir munu fölna og blikna og verða okkur auðsveip herraþjóð. Það er ekki spurning.
Nei, - Noregur, það er málið. Norðmenn eru satt að segja svo líkir okkur að það kæmi alveg til greina að veita þeim inngöngu í lýðveldið okkar, - ef þeir kæmu með kónginn með sér.
(Að vísu eru sumir eitthvað að rausa um að við eigum ættir til írskra þræla en það er bara lítilmótlegt nöldur og svo eiga Írarnir ekkert svona fínt fólk. Það er ótrúlegt hvað sumt fólk getur talað allt niður.)
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.