Þegar Kári hringdi þá vissi ég að eitthvað var að. Kári hringir ekki bara si svona uppúr þurru. Hann er ekki þannig týpa sem hringir og segir: „Hæ. Hvar ertu?“ Ég er heldur ekki þannig týpa að ég segi: „Sæll essku augasteinninn hans pabba sín ég er bara heima en hvar ert þú?” Svona símtöl þróast út í endalaust snakk um það hvar menn séu nákvæmlaga (ég er á efstu hæðinni í bílastæðahúsinu hjá Hagkaupum í Kringlunni), hvað menn eru að gera nákvæmlega (ég er að snúa lyklinum í svissinum til hægri) og hvernig veðrið er nákvæmlega.
Nei Kári hringir bara þegar eitthvað markvert er að segja og þó aðallega ef eitthvað er að hjá honum. Síðast þegar hann hringdi, það var á haustönn 2006, þá var hann lentur í vandræðum sem erfitt var að leysa þarna austurfrá. Eftir að hafa komist að því að það var ekki hentugt að vera með páfagauk þá hafði hann fengið sér litla skjaldböku í glerbúri. Páfagaukar eins og hann var með geta verið ágætis félagar, svo langt sem það nær, en þeir eru afar seinteknir og og taka það stinnt upp að vera skildir eftir hjá ókunnugum tvisvar á ári í nokkrar vikur í senn. Hann keypti sér því skjaldböku en sá fram á vandræði þegar hann færi heim í lok annarinnar.
Því var það að hann keypti Turtle 30 Days Survival Kit á Ebay.com og fékk senda útgáfu sem er ágæt í Ameríku en dugar ekki í Evrópu. Græjan var sem sagt með amerískri kló og var gerð fyrir 110 V straum. Hvað sem sumir segja þá skiptir stærðin ekki alltaf máli. Bara stúdentarnir í Debrecen eru líklega jafnmargir íbúum Reykjavíkur, - eða kannske frekar jafnmargir öllum kvenkyns Reykvíkingum sem eru á kjörskrá. En hvað um það, þrátt fyrir fjölmennið virðist enginn Debrecenbúi hafa séð viðskiptatækifærin sem felast í því að hafa til sölu straumbreyta sem breyta 220 V spennu í 110 V.
Á öndverðri haustönn 2006 tók því Kári upp símann, hringdi í mig og gerði mér ítarlega grein fyrir vandamálinu sem hann var lentur í. Aðstæður Kára höfðu að vísu breyst frá því að hann keypti skjaldbökuna því nú bjó hann í sambúð með tveimur ágætum Íslendingum og þurfti strangt til tekið ekki á félagsskap skjaldbökunnar að halda. En Kári hefur alltaf verið viðkvæm sál með sérstaka ástúð á dýrum þannig að hann gat enganvegin hugsað sér að setja litla skinnið í klósettið eða farga því á annan hátt. Honum fannst líka erfitt að fara til dýrasalans sem hafði bæði selt honum páfagaukinn og skjaldbökuna og líka tekið páfagaukinn til baka. Hann hafði nú þegar þurft að hlusta á ræðu um ábyrgðina sem fælist í að taka að sér dýr og að alls ekki mætti nota dýrin hans við tilraunir. Kári var ekki alveg viss um hvort dýrasalinn meinti að hann væri að gera tilraunir með að eiga dýrin, sem var að vissu leyti rétt, eða hvort hann meinti þetta sérstaklega til læknastúdenta og þeirra tilrauna sem sagt er að þeir geri með lifandi dýr í sterílum tilraunastofum.
Alla vega vildi hann síður fara til dýrasalans og hringdi í mig. Ég þekkti þetta mál alveg út í þaula enda var ég á þessum árum með stóra gula ameríska eldavél frá Westinghouse með miklu krómi, mörgum skúffum og að sjálfsögðu með straumbreyti. Þetta var myndarlegasta tæki og svo sem ekkert út á það að setja nema suðið og titringurinn sem það gaf frá sér allan sólarhringinn allt árið um kring. Já og útlitið, sem var ekki bara til óprýði heldur þorði maður eiginlega ekki að koma nálægt því, hvað þá að snerta það eða þurrka af því. Það var ekkert um það að ræða að sópa undan apparatinu því ég þorði ekki að koma nærri því og það var a.m.k. 32 lbs. á þyngd og því engin leið að hagga því.
Nú gerði ég Kára grein fyrir að það myndi ekki verða neitt vandamál að nálgast straumbreyti fyrir hann því hér á landi fengjust þeir í öllum rafmagnsvöruverslunum, í byggingarvöruverslunum og í betri blómabúðum. Það er vegna skrautljósanna frá Ameríku. Jafnframt sagði ég honum allt um vandamálið með stærðina og spurðist fyrir um orkunotkun Turtle 30 Days Survival Kit því hún hefur áhrif á verðið og ekki síst á þyngdina og það hvernig maður sendir svona græju milli landa. Það er t.d. óhægt um vik að senda þetta í sjófrakt til Ungverjalands. Annað er það að parta úr straumbreytum af stærri gerðinni er hægt að nota til að smíða eldflaugar sem hugsanlega geta borið sprengiefni. Ef tollurinn fer að kíkja nánar á sendinguna gæti bæði sendandi og móttakandi lent í fangelsi vegna gruns um aðild að hryðjuverkum. Þetta þarf allt saman að athuga vel áður en maður sendir svona nokkuð milli landa.
En Kári getur verið svo úrræðagóður að engu er líkt. Þar sem við sátum við sinn hvorn endann á símalínunni sagði hann einfaldlega: „Vinnur hann Magnús bróðir þinn ekki við alþjóðlega flutningastarfsemi?”
Mér hættir til að gera full mikið úr hlutunum, - stundum. Þannig var það í þetta skiptið. Ég einbeitti mér að vandamálunum á meðan Kári snéri sér beint að lausnunum. Auðvitað ræði ég þetta við Magnús og hann býðst snarlega til að redda þessu ef ég þekki hann rétt. Þar með slæ ég margar flugur í einu höggi. Magnús finnur bestu leiðina til að senda straumbreytinn og sér um alla pappírsvinnuna og mög líklega fer hann í fangelsið líka. Ásamt Kára að sjálfsögðu. Þetta flaug í gegnum huga minn á meðan Kári gaf mér upp tæknilegar upplýsingar um orkunotkun þessa Turtle 30 Days Survival Kit o.fl. Þar kom m.a. fram að tækið notar aðeins 50 W sem er aðeins lítið brot af því sem eldavélin notar og straumbreytir fyrir 50 W er allt of lítill til að hægt sé að nota hann til framleiðslu eldflauga.
Þó Kári sæji það ekki, þetta var áður en við fórum að nota VideoSkype, létti nú heldur yfir mér og ég sagði Kára bara hreint út og án fyrirvara að ég myndi redda þessu. Það er engin spurning. Svona 50 W straumbreytir kostar ekki nema fímm þúsund kall og það er hægt að setja hann í venjulega póst. Og með það kvöddumst við þetta fremur napra haustkvöld árið 2006 þegar Kári hringdi vegna vandræðanna út af Turtle 30 Days Survival Kit. Að vísu var bara napurt mín megin því í Debrecen eru haustkvöldin víst hlý og notaleg.
En nú hringdi Kári aftur og sagði mér sínar farir ekki sléttar. Frá því hann fór út eftir áramótin 2008-2009 hafði hann verið á útkikk eftir George Foreman Lean Mean Fat Reducing Grilling Machine eins og stendur ofan á eldavélinni hjá mér. Ekki bara eldar þetta tæki frábæran mat heldur eldar það frábæran mat á örskömmum tíma. Galdurinn við tækið er ekki síst að það eru brúnir umhverfis grillfletina þannig að það sprautast engin fita eða vökvi út um allt þegar maður notar það. Sem sagt bragðgott, fljótlegt og hreinlegt.
En Kári fann ekkert svona tæki í allri Debrecenborg og vildi ekki taka áhættuna á að fjárfesta í öðru og e.t.v. óvandaðra tæki sem gusar feiti í allar áttir við notkun. Það eru einmitt frágangurinn og þrifin eftir notkun sem geta gleymst á heimilum þar sem menn hafa nóg fyrir stafni og fyrr en varir lítur eldhúsið út eins og það sé aldrei þrifið. Þetta getur orðið svo slæmt að jafnvel salmíak lyktareyðirinn dugar ekki lengur. Svo Kári keypti George Foreman Lean Mean Fat Reducing Grilling Machine tæki á Ebay.com.
Ég lét Kára lesa fyrir mig allar tæknilegar upplýsingar um tækið og svo beindi hann vefmyndavélinni að því til að fá staðfest að þetta væri alveg eins og tækið mitt, sem það var. Ég var hinn brattasti og sagðist myndu redda þessu eins og mér einum er lagið. Það er engin spurning. Og svo fékk ég að sjá Misty, sem er tíkarhvolpurinn sem hann er að passa fyrir vini sína og verður yfir 80 kg þegar hún er full vaxin og hann fékk að sjá Emmu, sem er nýji tíkarhvolpurinn minn sem verður um 15 kg þegar hún er fullvaxin.
En mér varð ekki um sel þegar ég fór að leita að straumbreyti. Fyrir það fyrsta þarf ég að kaupa straumbreyti fyrir 1000 W og í öðru lagi kostar þannig tæki ISK 25.800. Í þriðja lagi þá vegur tækið 25 lbs. og er orðið af þeirri stærð að það er hægt að nota parta úr því í eldflaugar sem geta hugsanlega borið sprengiefni. Það sem þó er verst af öllu er að Magnús bróðir er hættur að vinna við alþjóðlega flutningastarfsemi. Ég hef því engan til að redda þessu fyrir mig og gæti lent í fangelsi sjálfur ef allt fer á versta veg.
Mér hefur dottið í hug að kaupa frekar George Foreman Lean Mean Fat Reducing Grilling Machine sem kostar um € 40 á Ebay.de og láta senda það til Kára. Ég gæti sagt honum að þetta væri afmælisgjöfin sem ég gleymdi að gefa honum þegar hann varð 14 ára. En bæði er nú það að Kára finnst kannske að ég sé að senda honum skilaboð um að hann ætti að láta alþjóðleg viðskipti eiga sig því það sé bara fyrir sérfræðinga eins og mig og svo líka hitt að það vill enginn taka kort frá Íslandi núna og að það er lokað bæði fyrir millifærslur frá landinu og greiðslur inná PayPal.
Ef ég vil standa við orð mín á ég því engra kosta völ nema að kaupa straumbreytinn og senda honum. Ég er búinn að fá tilboð í fraktina sem kostar ISK 22.300 með vsk miðað við að sendingartími sé allt að 3 mánuðir. Það má líka segja sem svo að ISK 48.100 sé ekki það há upphæð að maður gerist ómerkingu hennar vegna.
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.