Ég á fullt af ágætum pottum. Einn þeirra, uppáhaldspotturinn minn, var keyptur í Þýskalandi fyrir um 35 árum. Fínn pottur. Annann erfði ég úr búi mömmu, það er hangikjötspotturinn. Sólíd og góður pottur sem kominn er til ára sinna en sést ekki á honum eftir góða meðferð hjá mömmu. Svo á ég þrítuga kartöflukastarólu, sem farið er að sjá á, og ódýra litla sósukastarólu, sem ekki er vel góð. Eina lélega pönnu á ég og aðra vel góða.
Uppá síðkastið eru allir pottarnir lítið notaðir þannig að ég hefði vel getað fórnað eins og einum í mótmælaaðgerðir. Og kannske á ég eftir að gera það. En því miður tók ég ekki pott heldur með mér til mótmælanna heldur myndavél, sem reyndist vera með ónýtum batteríum. En sumpart var líka ágætt að vera ekki með potta því ég lærði margt um hvernig á að velja potta til þessara nota.
Ef við miðum t.d. við IKEA potta, þá er lítið gagn í Classic línunni. Þetta eru ódýrir og þunnir pottar sem hafa lítinn hljóm og botninn endist illa. Splendid línan er miklu betri. Góður botn sem þolir mótmælamusik langt fram á nótt. Tónninn er svosum ekki neitt sérstakur, fremur lágur og mattur. Hinsvegar er lokið af þessari línu frábært. Skær og fallegur hljómur í D-moll. En langbestir eru pottar úr Professional línunni. Þeir eru auðvitað talsvert dýrir, - en þvílíkt kvalitet. Þó botninn sé þykkur er formið á pottunum þannig að þeir virka eins og gjallarhorn með björtum og fallegum hljómi sem berst vel í þá átt sem maður beinir opinu á pottinum. Og þessir pottar endast og endast og þola áreiðanlega margra sólarhringa stanslaus mótmæli.
Við val á kjuðum gildir í raun það sama og við val á áhöldum til að nota við Teflonhúðaða potta. Nota tréáhöld þó þau gefi talsvert lægri tón en áhöld úr hörðu plasti eða málmi. Málmkjuðar eru tiltölulega fljótir að fara í gegnum botnana á pottunum. Ég hitti konu sem notaði sleif úr ryðfríu stáli á litla pönnu sem var gjörsamlega ónýt þótt konan hefði aðeins mótmælt stuttan tíma í gærkvöldi og ca 3 tíma í dag. Að vísu var þetta frekar ódýr panna.
Ég vil koma því á framfæri hér, að það er rosalega óviðeigandi og bara dálítið kinky að standa og berja taktinn með tveimur teskeiðum. Sama er að segja um það að berja saman tveim bútum úr kústsköftum. Svona nokkuð kemur bara óorði á fólk sem er að sinna mótmælum í alvöru. Það er nú nóg og erfitt að standa í þessu þótt ekki sé gert grín að manni.
En toppfólk notar alvöru tæki eins og básúnur og þrýstiloftslúðra. Þeir síðarnefndu eru svo kröftugir að ef maður lendir í hljómgeislanum verður maður annað hvort að halda sér í eitthvað jarðfast eða bara leggjast á jörðina.
frábærlega vel. Sérstaklega trommusett. Það var það sem Binni sonarsonur minn og hans menn notuðu.
Kúúúl!!!
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.