Það er þrælmagnað að virtur, mjög virtur fjölmiðill úti í hinum stóra heimi skuli nenna að nefna Geir H Haarde sem einn af helstu örlagavöldum kreppunnar miklu. Sem sagt, ekki bara setti hann Ísland á hausinn heldur allan heiminn líka.
Geir kemst að vísu ekki í flokk með stjórnmálamönnum heldur er hann settur í flokkinn "Aðrir," sem dregur aðeins úr heiðrinum. En hann ert.d. fyrir ofan enska seðlabankastjórann, forstjóra enska fjármálaeftirlitsins og bankastjóra Lehmanns banka.
Geir hlýtur, í góðum Oscarsverðlaunastíl, að koma þessum heiðri að í einhverju af viðtölunum sem birtast í sjónvarpi ótt og títt. Til að ekki fari fyrir honum eins og venjulega, nefnilega að hann segi ekki neitt, læt ég fylgja tillögu að ræðustúf sem hann getur lært utanbókar:
"Þetta kemur mér algjörlega í opna skjöldu. Ég vonaði að ég kæmi til greina sem bölvaldur ársins á Íslandi (þegar ég væri búinn að velja rétta dómnefnd), en mig grunaði ekki að virtur erlendur fjölmiðill, sem ég hef enga stjórn á, myndi meta verk mín á þennan hátt. Ég vek athygli á því að allir sem nefndir eru og þóttust sjá hrunið fyrirfram eru neðar en ég á blaðinu.
Ég vil taka fram, að þó þetta komi mér á óvart þá tel ég að ég eigi þennan heiður fyllilega skilið og ég tel mig vera hæfastan til að stýra uppbyggingunni eftir hrunið enda tókst afar vel til með hrunið sjálft. Ég bendi líka á að ég hef traustan meirihluta í Sjálfstæðisflokknum og erfitt er að sjá að annar flokkur eða annar einstaklingur geti unnið þau störf sem framundan eru. Ég er einfaldlega langbest til þess fallinn.
Að gefnu tilefni lýsi ég því yfir að ég ber enga ábyrgð á þeim mótmælum sem skríllinn hefur staðið fyrir undanfarna vikur. Margir munu álykta að ástæðan fyrir þeim sé eitthvað sem ég hef gert rangt en ég fullyrði að ég hef einmitt ekkert gert svo þetta stenst engan vegin.
Það er líka rétt að ítreka það að ég tel að nú sé mikilvægt að setja hagsmuni þjóðarinnar ofar flokkshagsmunum. Þetta verður best gert með því að að standa vörð um Sjálfstæðisflokkinn og það persónu- og einkahagsmunakerfi sem hann hefur komið á og hefur reynst flokknum svo vel.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka samstarfsmönnum mínum fyrir þeirra framlag. Þar vil ég fyrstan nefna læriföður minn og fóstbróður Davíð Oddsson sem undirbjó jarðveginn fyrir fallið, fyrst í forsætisráðuneytinu og síðan í seðlabankanum, þar sem hann hafði frábæra aðstöðu til að ala bankana og leiða síðan til slátrunar. Framlag hans verður varla ofmetið.
Ég vil einnig nefna Halldór Ásgrímsson, sem gerði allt sem við sögðum honum að gera til að ná þessu marki og átti auk þess frábæran þátt í að koma á kvótakerfinu, sem hefur fært honum, okkur og okkar mönnum drjúgan skildinginn. Hann valdi líka aðila til að taka við Búnaðarbankanum sem hefur vaxið og dafnað best allra bankanna.
Að lokum nefni ég handritshöfundinn sem hefur verið og er óþrjótandi uppspretta skoðana og gervigreininga sem eiga varla sinn líka nema hjá virtustu nýfrjálshyggjuvíkingum eins og Georg W og Söru Palin. Hannes Hólmsteinn hefur svo sannarlega átt sinn þátt í fallinu og svo sannarlega launað okkur atvinnugreiðann.
Ég þakka líka Ingu Jónu."
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.