Ég fæ í magann þegar ég sé kvikmyndir af mannlegu ofbeldi gegn minni máttar. Ég ætti e.t.v. að segja karlmannlegu ofbeldi af því að ég man varla eftir öðru. Þegar ráðist er á varnarlausa einstaklinga, stundum af fleiri en einum, og þeim misþyrmt grimmilega þá fæ ég kökk í hálsinn. Þegar karlagengi ræðst á konu til að nauðga henni þá verð ég andstuttur og mér vöknar um augun. Ekkert hefur jafn mikil áhrif á mig og svona persónulegt og grimmilegt ofbeldi.
Á Gaza-svæðinu kúrir fjölskylda í kjallara. Karlarnir eru hugsanlega úti á götu en konum og börnum er haldið innivið og kjallarinn er álitinn öruggastur. Þau hafa búið í herkví á landsvæði sem er á stærð við helminginn af Reykjanesinu í tvö ár samfellt. Enginn í fjölskyldunni hefur atvinnu og helmingur íbúa svæðisins er á framfæri Sameinuðu þjóðanna og ananrra hjálparstofnanna um allt sitt viðurværi. Það er dimmt og kalt í kjallaranum því þau hafa ekki rafmagn og ekki olíu fyrir hitaofna. Það litla sem þau hafa af olíu er notað til að elda mat við á prímus. Verst er að hafa ekki rennandi vatn.
Þau eru öll búin að læra að þekkja og aðgreina hljóðin frá herþotum, þyrlum og mannlausum eftirlitsvélum sem svima yfir borginni nótt sem nýtan dag. Þau kunna líka að áætla hvar sprengjurnar hafa lent og hvernig sprengum er varpað. Og þau vita að ef þau heyra rakettu skotið á loft í nágreninu þá er von á vondu.
Á tveimur vikum er búið að myrða nokkur hundruð svona fjölskyldur. Af um 1000 drepnum eru uppundir helmingur börn, sem kemur ekki á óvart því þau eru meira en helmingur íbúa svæðisins. Enginn veit hvað búið er að limlesta mörg börn en þau skipta þúsundum.
Að halda saklausu fólki í herkví, svelta það og svipta lágmarks nauðsynjum, ógna því með stanslausu yfirflugi í langan langan tíma og henda svo sprengjum á það, það veldur því að ég fæ hnút í magann, ég verð andstuttur, fæ kökk í hálsinn og mér vöknar um augun.
Hvernig í ósköpunum er hægt að láta þetta gerast?
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.