Nú þegar jólin nálgast þá nálgast líka jólagjafirnar. Sumir fara létt með jólagjafakaupin en ég legg mikla vinnu í þetta og er lengi að því. Ég reyni að taka tillit til kyns og aldurs þeirra sem eiga að fá gjafirnar og ég veit að allir kallar vilja frekar fá harða pakka en mjúka. Kallar eru svoddan rosa tækjafrík og því reyni ég að finna einhverjar græjur fyrir þá. En það er ekki alltaf einfalt.
Flestir kallar myndu t.d. vilja eiga litla netta plötusög. Kannske eina með tölvustýringu, 999 prógrömmum, snertilitaskjá, 0,05 mm nákvæmni, 92 mm skurðardýpt miða við 45° og 7,5 hp 3ggja fasa mótor. Þetta er bjútifúll græja úr áli með svörtum bryddingum. Allir hreyfanlegir partar leika á kúlulegum og það er hægt að fá hlífðargleraugu og eyrnahlífar í stíl. Hinsvegar veit ég ekki um neinn sem hefur fengið svona græju í stofuna hjá sér. Meira að segja Magnús bróðir verður að geyma sína í útihúsi vestur á Snæfellsnesi. Við verðum því að láta okkur nægja minni græjur. En þær geta verið ágætar þó þær séu minni. Sjáið t.d. þessar hérna:
Gaffallin er til í tveimur litum og hann er með rofa sem passar fyrir rétthenda einstaklinga. Framhlutanum er smellt af og á þannig að hann má setja í uppþvottavél. Það er því miður aðeins einfaldur rofi á gafflinum og engin ljós og engin tónlist eða hraðabreytir. En þetta er fyrsta útgáfa þannig að vel getur verið að úr þessu verði bætt í næstu útgáfu.
Handklæði fyrir efri og neðri hluta
Allir sem ég þekki, nema kannske Sigurjón ef marka má af lyktinni, fara í sturtu mánaðarlega og jafnvel oftar. Þar sem margir eru í heimili kemur alltaf upp þetta vandamál með það hvorn hlutann af handklæðinu sá sem var á undan manni notaði á efri hluta og hvorn á neðri hluta líkamans. Oft getur maður séð þetta þegar búið er að nota handklæðið nokkrum sinnum en alls ekki eftir nokkur fyrstu skiptin. Á þessu handklæði má lesa hvorn hlutann á að nota á hvorn hluta kroppsins og meira að segja litirnir gefa til kynna hvort er hvað. Eini gallinn er að þetta er mjúkur pakki.
Allir þekkja hversu hvimleitt það er þegar maður er búinn að finna lesningu sestur og byrjaður þegar batteríið er búið á iPodinum. Hér er frábær lausn á því. Rúlluhaldarinn er hannaður framleiddur af sömu gæðum og aðrar vörur frá Apple. Efnið er algjörlega náttúrulegt plast og innbyggðu hátalararnir eru vonandi stereo í háum gæðaflokki og þola vonandi raka. Miðað við myndina er dálítið af tökkum og líklega gaumljós en Apple vörur eru oft ansi fátæklegar hvað það varðar.
Hugsanlega er þessi gjöf hentugri til að gefa konum. Það gæti alveg misskilist ef eiginkona gæfi kalli sínum þetta í jólagjöf. Reyndar gæti það líka misskilist ef kona notar þessa frábæru hnífageymslu ekki af nokkurri varúð og með bros á vör. Ef næstefsta hnífnum er stungið af offorsi í slíðrið gæti það þýtt sófann þá nóttina. Hnífarnir fylgja auðvitað með.
Hver er Sigurjon?
Posted by: jgauti | miðvikudagur, 03 desember 2008 at 19:23