... eða fötin skapa manninn.
Eftir að ég gerði mér grein fyrir að ég er trúleysingi hefur flest sem lítur að trú og trúarbrögðum tekið á sig nýja mynd í mínum huga. Margt, sem mér var innrætt í sunnudagaskóla, í KFUM og í kristinboðstímum í barnaskóla og ég flokkaði með talsverðri andakt sem guðlegt eða mystískt, finnst mér í dag vera óskiljanlegt bull eða jafnvel bara hlægilegt. Eftir viku er t.d. hvítasunnudagur. Hvað er með þennan hvítasunnudag. Ég hef litla hugmynd um það jafnvel þó ég lesi umfjöllun á vef þjóðkirkjunnar um hann.
"Hvítasunnan er þriðja stórhátíð kristninnar.... Nú eru liðnar sjö vikur frá páskum, og fimmtíu
dagar. Af þeirri ástæðu ber hvítasunnan á mörgum erlendum tungum nafn
sem dregið er af gríska orðinu pentecosté (hinn fimmtugasti).... Hátíðin sem haldin er á þessum tíma að sið gyðinganna er
einskonar uppskeruhátíð....
Kristnir menn minnast á hvítasunnu einnig hins nýja sáttmála náðar og kærleika, þegar heilagur andi er sendur kristnum lýð...."
Ég skil ágætlega þetta með uppskeruhátíðina. Heilögustu hátíðir kristinna manna, jól og páskar, eru líka upprunnar í miklu eldri siðum og tengjast sólargangi og tímatali. Hins vegar eru 7 vikur alltaf 49 dagar í minni bók. Ég er viss um að það liggja langar og djúpar pælingar að baki því að í þessu tilfelli séu þær 50 dagar. En þetta með sáttmála og einkum þó þennan heilagan anda hef ég aldrei skilið. Og þetta verður enn óskiljanlegra, eða skáldlegra, þegar meira er lesið:
Það sem ég vissi ekki þar til nú er að "Pentacostalism," sem er sértrúarsöfnuður innan kirkjunnar, er kenndur við hvítasunnuna. Þetta eru sem sé hvítasunnusöfnuðir. Við höfum þá líka hér á landi í fleiri en einni útgáfu. Þar er einmitt algengt að menn "tali tungum," noti ekki svitaeyði og verði ekki frelsaðir nema með því að; " ....believe that salvation is a gift earned through a faith in Jesus Christ, and cannot be earned through good deeds alone...." Málið sem fólk talar þegar það "talar tungum" hefur auðvitað verið rannsakað. Það er bara bull sem ekkert á skylt við málfar eða málýskur sem fræðimenn þekkja til. En það er ekki von því að kirkjan segir að það þurfi heilagan anda eða starfsmenn hans til að þýða það. Söfnuðir pentacostalista munu ver þeir sem vaxa hraðast innan kristni.
Reyndar er einmitt þetta með "að tala tungum" og að vera ávarpaður af guði eða öðrum ámóta kapítuli fyrir sig. Geðdeildir um allan heim eru fullar af fólki sem heyrir raddir og talar tungum. Það virðist skipta miklu máli hvar fólk er þegar atburðirnir gerast. Ef þú ert í kirkju eða í klaustri þykir þetta eðlilegt en þú getur átt á hættu að vera tekinn fastur ef þú ert annarsstaðar. Jafnvel sviptur sjálfsforræði og lokaður inni. Nunnur eru sumarhverjar harðgiftar steindauðum kalli og loka sig sjálfviljugar inni allt sitt líf. Í daglega lífinu myndi maður ganga undir mann til að hjálpa blessaðri konunni en í klaustri er þetta bara eðlilegasti hlutur í heimi.
Maður nokkur, Phil Howard the Evangelist, predikar með eðlilegri röddu á götum Lundúna að menn eigi að lifa siðsömu lífi. Þeir eiga að segja satt og vera góðir við nágranna sína. Hann talar líka um trú, syndir og frelsun og verður reglulega fyrir aðkasti vegfarenda og jafnvel lögreglu. Maður sem boðar sömu hugmyndir með tilgerðarlegri rödd, ýktum áherslum og e.t.v. á útdauðu tungumáli úr predikunarstól gæti hugsanlega verið á launum hjá sama aðila og lögreglan.
Ég hef verið að horfa á þætti á BBC2 sem heita Am I normal?. Það er sálfræðingur, DR. Tanya Byron, sem gerir þessa þætti og þeir eru frábærir. Sá fyrsti fjallaði um fíkn, annar þátturinn um útlitsímyndina og í gær horfði ég á þátt um trú. Ef einhver hefur áhuga er hægt að horfa á þann hátt í 6 ágætum Youtube myndskeiðum hér. Hvert myndskeið er um 10 mínutna langt en vel þess virði að skoða. Það þarf varla að taka fram að þættirnir gera efninu allmiklu betri skil en ég geri í þessum línum. Neðsta myndin er af Tanya.
Íri nokkur, David Tynan O'Mahoney, kallaði sig Dave Allen og var sviðs- og sjónvarpsgrínari í sér klassa hér á árum áður. Hann var reglulegur gestur í íslenska sjónvarpinu einhverntímann á áttunda áratugnum. Meðal þess sem hann gerði grín að var kaþólska kirkjan. Þetta var mjög óvenjulegt á þessum árum og eins hitt, að maðurinn var yfirlýstur trúleysingi. Hér er smá sýnishorn af hans frábæra húmor sem sýnir hversu sprenghlægileg trúarbrögð geta verið.
Nenntirðu að horfa á Am I normal þáttinn?
Posted by: ggauti | sunnudagur, 04 maí 2008 at 00:28
Þú svo sem veist alveg mína skoðun á trú eða öllu heldur trúarbrögðum, en ég vildi bara benda þér á skemmtileg þætti sem ég fann á þessari síðu sem þú bentir á, "enemies of Reason" með félaga okkar Richard Dawkins.
Ég hafði sérstaklega gaman af þætti tvö "irrational health service"
Hægt er að finna þættina á youtube: Enemies of Reason og svo ep.1 eða ep.2
Posted by: Kári | laugardagur, 03 maí 2008 at 21:25