Ég hef þá trú, að tiltölulega fáir Íslendingar séu í raun trúaðir. Þá miða ég við að þeir í raun trúi á meyfæðinguna, upprisuna og heilagan anda. Ég held reyndar að fæstir átti sig á þessum heilaga anda. Það geri ég allavega ekki. Margir eiga hinsvegar það sem þeir kalla barnatrú. Það er einhver óskilgreind andakt, sem byggir á biblíusögum, sem kenndar eru í tímum sem ætlaðir eru fyrir trúarbragðafræðslu í grunnskólanum, á fermingarfræðslu, sálmum eftir Hallgrím Pétursson o.fl. og á einhverju sem kallað er kristin siðfræði.
Sem betur fer hafa hugmyndir kirkjunnar um siðfræði breyst verulega til batnaðar á síðustu 400 árum eða svo. Meðan kaþólska kirkjan réði því hverjir fóru til himna og hverjir til heljar, hafði hún einokun á kristinni siðfræði. Siðfræðin kom að hluta í staðin fyrir önnur fræði svo sem náttúrufræði og stjörnufræði og aðferðirnar, sem notaðar voru til að kenna hana, voru ekki beint það sem við köllum siðlegt í dag. Að pynta fólk, brenna á báli og steikja í feiti er dálítið langt gengið fyrir minn smekk.
Með endurreisninni komu mótmælendur og þeirra skilningur á trúnni og kristinni siðfræði. Hinn nýi trúarskilningur var að miklu leyti tilraun til að leiðrétta það sem úrskeiðis hafði farið hjá kaþólsku kirkjunni. Nema e.t.v. í Englandi. Páfinn bannaði Henry VIII að skilja við Katrínu af Aragon, dóttur Filipusar og Isabellu af Spáni. Henry fyrirskipaði þá kirkjunni að skilja við páfann. Að auki koma söfnuðir eins og Mormónar og Vottar Jehóva, sem að einhverju leiti telja að "hefðbundin" mótmælendatrú sé ekki kristin trú.
Söfnuðir mótmælenda hafa mjög mismunandi hugmyndir um siðfræði og óhætt er að segja, að á Norðurlöndum og Íslandi sé fólk hvað frjálslyndast. Samanburður á því sem við myndum kalla siðsemi milli svæða í hinum vestræna heimi sýnir, að því frjálslyndara sem fólk er því siðsamara er það. Í biblíuríkjum BNA eru allskyns svik og glæpir miklu meiri en í frjálslyndari ríkjum.
Mér fellur illa þegar prestar og aðrir prelátar tala niður til fólks, sem skilur tilveruna á annan hátt en þeir sjálfir. Hvað kirkjulega siðfræði og vísindi varðar hafa þeir ekki úr háu sessi að falla. Biskupinn gerir þetta all oft þegar hann talar til trúleysingja og þeirra sem aðhyllast ókristin trúarbrögð. Að kalla fólk nöfnum og gera því upp ofstæki er partur af gamla kerfinu, sem grasseraði áður en Luther kom til sögunnar. Hann má svo sem alveg hafa það í huga, að þeir sem játa Lúterstrú eru taldir vera innan við 20 mill. af um 350 mill. sem teljast til mótmælenda og yfir 2000 mill. kristinna.
Það er einnig ágætt að vita, að hátíðir sem kristnir söfnuðir hafa tileinkað Jesú eða öðrum trúarviðburðum, eiga sér oftast miklu lengri sögu en trúarbrögðin sjálf. Ólína Þorvarðardóttir gerir jólunum góð skil í þessari grein.
Gleðileg jól!
Orð dagsins:
Fáir trúa raunverulega. Flestir trúa bara að þeir trúi.
(óþekktur höf.)
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.