Eitt er það hversu kosningafyrirkomulagið í BNA er flókið og hvernig lýðræðið lætur í minni pokann fyrir hinu markmiðinu með kerfinu; að koma í veg fyrir að kosnir fulltrúar og stjórnsýslan fái of mikil völd á kostnað einstaklinganna. Annað er svo hitt hvernig einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök nota kerfið. Eins og flest annað í BNA þá er varla hægt að segja annað en að kosningar gangi opinberlega kaupum og sölu og það þyki bara eðlilegt.
Ég heyri ekki betur enn að það séu viðurkennd vísindi í BNA að sá sem hefur meiri peninga vinni kosningar gegn þeim sem hefur minni. Og þó hægt sé að safna ótrúlega miklum peningum gegnum lágar upphæðir frá einstaklingum (Obama gerði það) þá kemur mikill hluti fjárins samt frá fyrirtækjum og samtökum sem stofnuð eru sérstaklega til að kaupa atkvæði. Þessi samtök geta styrkt frambjóðendur um milljónir dollara án þess að gefa upp hvaðan peningarnir koma.
Í öllu peningaflóðinu virðist oft ekki skipta máli hver frambjóðandinn er eða fyrir hvað hann stendur. Í Nevada heldur frambjóðandi til öldungadeildarinnar því fram að sjaria lög gildi í tilteknum héruðum í BNA og hún muni beita sér fyrir því að þau verði felld úr gildi. Þessi frambjóðandi hótar líka vopnaðri uppreisn ef hún tapar kosningunni, er á móti fóstureyðingu án nokkurra undantekninga (nauðganir, sifjaspell) og gerir grimmt út á ótta við minnihlutahópa. Hún (Sharon Angel) veitir fjölmiðlum ekki viðtöl nema þeir styðji hana og aðstoði við fjáröflun og segist muni útskýra stefnuskrá sína betur þegar hún hefur náð kosningu.
Í New York sendir frambjóðandi til ríkisstjóra svæsinn klámpóst til stuðningsmanna og telur ósvinnu að krakkar fái að horfa á Gay Pride göngur. Í Delaware var hlegið að Christine O‘Donnel en hún var svo heimsk og blind að hún hélt að fólkið væri að hægja að andstæðingi hennar. Í Alaska svaraði frambjóðandi ósk um nánari skýringu á atriði í stefnuskrá hans með því að vísa í stefnuskránna og að „framboð hans“ (ópersónuleg þriðja persóna) myndi halda sig við það sem þar stæði að sinni.
Af þeim sem hér eru nefndir eiga líklega frambjóðendurnir í Alaska og í Nevada möguleika á að ná kjöri. Þótt Sharon Angel og framboð hennar sé algjörlega út úr kú þá telja þeir sem ráðskast með peningana að það sé meira virði að fella sitjandi demókrata og þingflokksformann en að vera smásmugusamur gagnvart Sharon. Hinsvegar hafa þeir ekki treyst sér til að styðja Christine (sem sumir kalla mini Palin) neitt að ráði.
Stórum hluta fjárframlaga er eytt í auglýsingar. Þar sem mest gengur á er útsendingartími auglýsinga keyptur upp dögum saman. Og kosningaauglýsingar í BNA eru að langmestu leyti útúrsnúningar og persónulegar níð um mótherjann. Það sjást varla auglýsingar sem segja frá stefnumálum þess sem auglýsir. Það er bara „boring boring.“
En sumt af þessu þekkjum við svosem hér hjá okkur. Guðlaugur Þór fékk 25 milljóna styrk frá einum banka fyrir kosningarnar 2007. Þetta er sem nemur 78 kr fyrir hvert mannsbarn á landinu (og um 5000 kr fyrir hvert atkvæði sem hann fékk).
Yfirfært á BNA samsvarar þetta að frambjóðandi tæki á móti $ 220.000.000 (220 milljónir dollara, ISK 24 milljarðar) frá einum og sama styrktaraðilanum. Þetta er hlutfallslega miklu miklu hærri upphæð en almennt er um styrki í BNA. Til samanburðar má geta þess að McCain safnaði $370 og Obama $750 milljónum í forvali og forsetakosningum 2008. Upphæðin sem Obama safnaði sló öll fyrri met og 88% peninganna komu í litlum framlögum gegnum netið.
Recent Comments